Bruni í húsbíl

Vel fór þrátt fyrir bruna aðfararnótt 4. júlí á tjaldsvæðinu í Stykkishólmi. Kviknað hafði í húsbíl þar sem eigendurnir sváfu.

Þau vöknuðu við skrjáf og urðu var við eldinn. Með hraði tókst þeim að slökkva áður en eldurinn teygði sig lengra í innréttingu bílsins. Vaktþjónustan Vökustaur varð var við reyk og þegar hann bar að garði var búið að slökkva. „Þetta var bara sekúnduspursmál” sagði Agnar Jónsson hjá Vökustaur í samtali við Stykkishólms-Póstinn.

Bíllinn er keyrsluhæfur en innrétting ónýt. Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni.

Eigendur bílsins fengu aðhlynningu á Sjúkrahúsi HVE í Stykkishólmi.