Bryndís hættir og leikmenn landsliða í heimsókn

Frjósemi kvennaliðs Snæfells í körfubolta virðist ekki eiga sér nokkur takmörk. Nú hefur Bryndís Guðmundsdóttir lagt skóna á hilluna í bili þar sem hún á von á barni í byrjun næsta árs. Bryndís spilaði með Snæfelli síðustu tvö tímabil og er mikil reynslubolti í bransanum. Sex sinnum hefur hún orðið Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari á fjórtán ára ferli í atvinnumennsku. Í viðtali við Karfan.is telur hún meiri líkur en minni á að hún snúi ekki til baka.

Landsliðsfólk í heimsókn

Meira af landsliðsfólki. Fimmtudaginn 13. júlí verða góðir gestir úr landsliðum körfuboltans í herbúðum Snæfells. Martin Hermannsson, leikmaður Châlon-Reims í frönsku A-deildinni og Hildur Björg Kjartansdóttir úr Breiðabliki eru á ferð um landið í verkefninu Körfuboltasumarið.

Hildur er uppalinn Hólmari.

Verkefnið er styrkt af FIBA og heimsækja þau krakka sem eru að æfa körfu yfir sumarið. Þau kenna krökkunum hvernig á að setja sér markmið og hvað þurfi til þess að komast í atvinnumennsku.

Hægt er að fylgjast með ferð Hildar og Martins á Snapchat undir notandanafninu Korfuboltasumar.