Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Byggðaáætlun

Byggðaáætlun 2018-2024 liggur fyrir á Alþingi sem tillaga að þingsályktunartillögu. Að mati sambands íslenskra sveitarfélaga felur áætlunin í sér raunhæfar aðgerðir til styrkingar byggða. Í umsögn sambandsins kemur jafnframt fram, að hér sé um eina metnaðarfyllstu tillögu að byggðaáætlun að ræða sem komið hefur fram.

Fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf og aðgengi í dreifðum byggðum að tæknibreytingum og -þróun eru helstu viðfangsefni áætlunarinnar. Sambandið er sammála þeim áherslum, en leggur jafnframt fram ýmsar athugasemdir við einstaka efnisþætti er varða heilbrigðisþjónustu, skólamál, akstursþjónustu í dreifbýli, ferðaþjónustu og byggðaáætlun, orkumál, almenningssamgöngur og húsnæðismál.

Í umsögn um heilbrigðisþjónustu telur sambandið nauðsynlegt að styrkja nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu, svo hún verði aðgengileg öllum, hvar sem fólk býr á landinu. Er þar sérstaklega horft til lausna í fjarheilbrigðisþjónustu. Þar sem rætt er um skólamál er það gert að umtalsefni að fjármagn hefur skort til þess t.d. að halda úti fjarnámi á framhaldsskólastigi í Grundarfirði ekki síst til þess að þróa það. Bent er á að auka þurfi fjármagn í jöfnunarsjóð til að sveitarfélögin geti staðið undir væntanlegri akstursþjónustu. Sambandið er sammála þeim markmiðum byggðaáætlunar að fjölga ferðamönnum sem koma inn í landið annarsstaðar en á SV-horninu, með það að markmiði að dreifa ferðamönnum um landið. Að færa gistináttaskatt til sveitarfélaga telur sambandið þurfa að hrinda af stað sem fyrst, það myndi auka möguleika sveitarfélaga á að takast á við þau verkefni sem snúa að ferðaþjónustunni. Um orkumálin leggur sambandið m.a. til að ráðist verði í laga- og reglugerðarbreytingar sem snúa að vindorkuverum.

Byggðaáætlun er mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld til að móta stefnu í byggðamálum í samstarfi við sveitarfélögin, enda felast mikil verðmæti í því að efla byggðir um land allt og tryggja landsmönnum aðgang að grunnþjónustu, fjölbreyttum atvinnutækifærum og auknum lífsgæðum.

Öllum er frjálst að senda inn umsögn um þingsályktunina á vef alþingis, en þar er einnig hægt að kynna sér ályktunina í heild: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=148&mnr=480

am/frettir@snaefellingar.is