Danskir dagar 2018

Danskir dagar voru haldnir s.l. helgi og fór hátíðin ágætlega fram. Fremur kalt var á föstudeginum þegar setningin fór fram og urðu sumir að hlýja sér sérstaklega vel á æsispennandi fótboltaleiknum á fótboltavellinum, sem endaði með jafntefli. Stúkusætin voru tekin hátíðlega í notkun við þetta tækifæri og var stemning á leiknum. Laugar- og sunnudagur skörtuðu ljómandi fínu veðri og var fólk á ferðinni um bæinn fram á kvöld. Vikuna á undan höfðu ýmsir viðburðir verið í gangi m.a. í bókasafni, eldjfallasafni og víðar en um helgina voru tveir dansleikir. Í fyrsta sinn í reiðhöllinni á föstudag og svo í íþróttahúsinu á laugardag. Ágætis aðsókn var á báða dansleiki og mikið stuð í hljómsveitunum sem fram komu. Bryggjuball var á laugardagskvöldinu þar sem fjöldi fólks kom saman á öllum aldri og glæsileg flugeldasýning björgunarsveitarinnar rak endahnútinn á það. Dagskráin náði yfir fleiri daga en áður og var nokkuð fjölbreytt. Höfðu þó einhverjir á orði að fáir gestir hefðu verið í bænum og vel hefði mátt skreyta bæinn meira. Frést hefur af hverfagrilli í tveimur hverfum og voru þau vel heppnuð. Danskir dagar hafa verið haldnir frá árinu 1994 og hefur hátíðin ávalt skapað umræður milli bæjarbúa á eftir. Það er eðli svona hátíða að allir hafa á þeim skoðanir. Vonandi skapast málefnaleg umræða sem draga má lærdóm af, öllum til heilla.

am/frettir@snaefellingar.is