Deildarmeistarar – Myndir

Meistaraflokkur Snæfells í körfubolta kvenna varð í síðustu viku deildarmeistari í Domino’s deildinni í fjórða skipti eftir sigur á Grindavík. Snæfell lýkur mótinu með 44 stig, unnir leikir voru 22 og tapaðir 6.

Ljóst er að liðið mun mæta Stjörnunni í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Þær eiga möguleika á því að verða fyrsta liðið til að vinna titilinn fjögur ár í röð. Í hinni viðureigninni mætast Keflavík og Skallagrímur.

Liðið tók við deildarmeistarabikarnum þriðjudagskvöldið 21. mars eftir tap gegn Keflavík. Keflavíkurliðið endar í öðru sæti deildarinnar, jafnt að stigum en Snæfell endar fyrir ofan vegna hagstæðra úrslita á milli liðanna í vetur.

Varaformaður KKÍ, Guðbjörg Norðfjörð, færði liðinu bikarinn.

Það er ekki sjálfgefið að lítið bæjarfélag úti á landi geti státað sig af liði sem ver ítrekað Íslandsmeistaratitil í hópíþrótt. Að baki liggur mikil vinna þjálfara og leikmanna auk óeigingjarns starfs stuðningsmanna og velunnarra. Úrslitakeppnin hefst 28. mars.