Dvalarheimilið 40 ára

Um þessar mundir eru 40 ár frá því að Dvalaheimilið í Stykkishólmi var tekið í notkun. Árið 1978 voru 18 herbergi ýmist eins- eða tveggja manna tekin í notkun. Aðdragandinn nær þó allt aftur til ársins 1958 þegar umræður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um elliheimilismál, eins og það var kallað, fóru fram í sýslunefnd, hreppsnefndum og innan kvenfélaganna á Snæfellsnesi. Fram kemur á heimasíðu Dvalarheimilisins að þar hafi aðallega verið rætt um eitt elliheimili fyrir sýsluna og þá meðal annars horft til aðstöðu við St. Franciskussjúkrahúsið.  Það er svo ekki fyrr en 1976 að hreppsnefnd Stykkishólms skipar nefnd til að hefja undirbúning að stofnun dvalarheimilis í heimavistarhúsnæði skólanna á Skólastíg þar sem heimavistin hafði verið lögð niður. Nefndina skipuðu Einar Karlsson hreppsnefndarmaður, Gissur Tryggvason sýsluskrifari, Sturla Böðvarsson sveitarstjóri og til vara Freyja Finnsdóttir formaður kvenfélagsins. Árið 1991 voru teknar í notkun átta þjónustuíbúðir fyrir aldraða og eru þær samtengdar Dvalarheimilinu. Árið 1997 voru svo teknar í notkun sjö íbúðir að Skólastíg 16 sem einnig eru tengdar Dvalarheimilinu. Guðlaug Vigfúsdóttir var fyrsta forstöðukona Dvalarheimilisins en hún starfaði sem slík frá stofnun 1978 til 1988.

Spor verða mörkuð í sögu Dvalarheimilisins í Stykkishólmi, væntanlega á þessu eða næsta ári þegar hjúkrunarrýmin verða flutt á St. Fransiskusspítalann, eins og reyndar hafði verið í umræðunni fyrir 60 árum. Ekki liggur fyrir hvernig núverandi hjúkrunarrými á Skólastíg verða nýtt í framtíðinni.

am/frettir@snaefellingar.is