Efling mun ekki sjá um Danska daga

Í síðasta blaði sögðum við frá stjórnarskiptum í Eflingu Stykkishólms eftir aðalfund. Efling er félag atvinnurekenda í Stykkishólmi og hefur staðið við bakið á Dönskum dögum frá árinu 1995. Samkvæmt nýrri stjórn var ekki áhugi til þess að halda Danska daga í núverandi mynd.

Stjórnin hefur nú fundað og í fundargerð má finna eftirfarandi bókun:

„Markmið nýrrar stjórnar Eflingar er að vinna að heildstæðri framtíðarstefnu í ferðamálum fyrir bæinn í samstarfi við Stykkishólmsbæ. Nauðsynlegt er að bregðast við þeirri miklu aukningu ferðamanna sem við blasir og ákvarða hvernig hægt sé að nýta sér tækifæri henni tengd í sátt og samlyndi við íbúa og umhverfi, samfélaginu til heilla. Von stjórnarinnar er sú með slíkri stefnu sé hægt að gera bæinn okkar að gæðaáfangastað allt árið þar sem áhersla er lögð á menningu. Það er því ljóst að stjórnin hefur ærið verk að vinna á næstu misserum.

Í ljósi þess og þeirrar umræðu sem fram fór á aðalfundi Eflingar á mánudaginn síðastliðinn hefur nýkjörin stjórn tekið þá ákvörðun að Efling muni ekki standa að framkvæmd Danskra daga og beina kröftum sínum frekar að fyrrgreindri stefnumótunarvinnu. Í stefnu félagsins segir að það skuli einbeita sér að því að ýta úr vör nýjum verkefnum í þeirri von að aðrir taki við því sem vel hefur tekist. Stjórnin fagnar því þeim hugmyndum sem henni hafa borist og hvetur hugmyndasmiðina til þess að finna hátíðinni farveg á öðrum vettvangi.”

Það er því ljóst að breyting verður á hátíðinni í ár en þegar er kominn hópur með hugmyndir að Dönskum dögum sem verður kynnt nánar síðar.

Efling ætlar sér að vinna náið með félagsmönnum sínum og íbúum Stykkishólmsbæjar til þess að ná markmiðum sínum. Von er á Facebook-síðu félagsins þar sem allir munu geta séð störf stjórnarinnar.