Egilshús 150 ára

Egilshús er eitt af friðuðum húsum í Stykkishólmi og fagnar það 150 árum í ár.
Það var reist fyrir Egil Egilssen 1867. Þótt Egilshús hafi verið með stærstu húsum á sínum tíma var húsið lengst af í eigu eins eiganda í senn. Húsið hefur gengið undir ýmsum nöfnum s.s. Egilsonshús, Læknishús gamla, Egilsstaðir og Settuhöll.

Egill var bróðir Benedikts Gröndal skálds og fræðimanns. Hann sat á þingi fyrir Snæfellinga árin 1869-1874 og frá 1880-1885 var hann þingmaður Mýramanna. Síðar keypti Daníel Thorlacius húsið. Daníel var kaupmaður og stjórnmálamaður líkt og Egill en komst í greiðsluþrot og 1889 var húsið selt á uppboði. Hjörtur Jónsson héraðslæknir keypti það. Árið 1907 keypti Jón Árnason Þorsteinsson Egilssen húsið. Frá 1908 var húsið leigt ýmsum og þar var m.a. aðsetur Sýslumanns og seinna var rekið Kaupfélag verkamanna í húsinu.

1928 bjuggu mæðgurnar Sesselja Einarsdóttir og Elínborg Kristmundsdóttir sem síðar erfði húsið eftir þáverandi eiganda þess Þorvald Jóhannesson skósmið.

Húsið hefur hýst marga starfsemi og hafa líkast til flestir bæjarbúar átt erindi þangað inn á einhverjum tímapunkti. Verslun var þarna um tíma, myndbandaleiga, gæludýraverslun, líkamsræktar-stöð og margt fleira. Um tíma var húsið í eigu Stykkishólmsbæjar. Þá var þar fjarnámsaðstaða fyrir háskólanema. Efling hafði þar skrifstofu og Málflutningsstofa Snæfellsness. Stykkishólms-Pósturinn var einnig þar til húsa á árunum 2005-2007.

Stykkishólmsbær seldi Gistiver ehf húsið fyrir rúmum fimm árum og var það endurbyggt allt að innan og árið 2012 opnaði þar Hótel Egilsen sem enn er rekið í húsinu og fagnar því 5 ára afmæli um þessar mundir.

Meðfylgjandi mynd kemur frá Frakklandi og er tekin 1868 aðeins ári eftir að Egilshús var reist.  Má telja að myndin sé með þeim allra elstu af húsinu og jafnframt Plássinu.