Bæjarstjórn samþykkti í dag, á fundi sínum, styrk til Hesteigendafélags Stykkishólms sem mun nema allt að 15 milljónum.

Bæjarstjórn samþykkir styrk til HEFST

Bæjarstjórn samþykkti í dag, á fundi sínum, styrk til Hesteigendafélags Stykkishólms sem mun nema allt að 15 milljónum.

Bæjarráðið hafði áður samþykkt þennan styrk á fundi 11.apríl.  Styrkurinn er þó háður þeim skilyrðum að Hesteigendafélagið nái að uppfylla þær fjáröflunarleiðir sem það tilgreinir í styrkumsókninni.   Þar ber hæst að félagið fái 10 millj.kr. styrk úr sjóði Landbúnaðarráðuneytis til byggingar reiðskemmu.  En Hesteigendafélagið og hestafélögin í Ólafsvík og Grundarfirði lögðu inn sameiginlega umsókn í nafni Snæfellings á 30 milljón króna styrk sem er hæsta styrkupphæðin sem úthlutunarnefndin veitir.  Samkomulag félaganna gengur svo út á það að skipta styrkupphæðinni jafnt á milli þeirra.   Sá böggull fylgir þó skammrifi að í upphaflegum markmiðum úthlutunarnefndarinnar var að einungis yrði um eina upphæð að ræða sem skyldi fara í eina byggingu en ekki margar. Félögin treysta því að úthlutunar-nefndin vilji stuðla að einingu félaganna innan Snæfellings fremur en sundrungu.  Því það er ljóst að sú staða gæti orðið erfið ef einungis fengist lág upphæð sem varla væri til skiptana, þá gæti komið til deilna um krónuna innan Snæfellings.
    Auk þessara 10 milljóna sem Hesteigendafélagið treystir á að fá frá Landbúnaðarráðuneytinu þá tilgreindi Hesteigendafélagið einnig fjáröflunarleiðir sem eiga að afla því 5 milljóna króna.   Þannig að þessu gefnu að Hesteigendafélagið fái þessar 15 milljónir þá mun Stykkishólmsbær leggja til aðrar 15 milljónir á móti sem munu dreifast jafnt á fimm ár og munu þær styrkgreiðslur þá hefjast árið 2007.