Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Baráttukveðjur frá Hollandi

Það hefur lengi staðið til að heyra í þeim Snæfellingum Hlyni og Sigurði sem nú spila sem atvinnumenn í körfubolta með liði Woonaris í efstu deild í Hollandi. 

Það hefur lengi staðið til að heyra í þeim Snæfellingum Hlyni og Sigurði sem nú spila sem atvinnumenn í körfubolta með liði Woonaris í efstu deild í Hollandi.
Nú þegar dregur til tíðinda hjá fyrrum liðsfélögum þeirra í Snæfelli þá var ekki til setunnar boðið og Stykkishólms-Pósturinn  sendi  þeim línu spurði frétta af þeim.  Hlynur var snöggur til svara og sendi okkur þau um hæl og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.  Sigurður sem er þekktur fyrir mikil skrif á bloggsíðu þeirra fyrrum og núverandi Snæfellinga, hefur eitthvað tafist en vonandi fáum við tíðindi af honum  síðar.  En gefum Hlyni orðið.  Hvað segir hann um Holland, Hollendinga,körfuna þar og svona í lokin viðureignina við KR?
    Holland er ágætasta land til að búa í, 15 milljónir búa hér en samt er landið mjög lítið, okkar lengsta ferðalag yfir allt Holland er 3 tímar í rútu sem er ákaflega þægilegt. Bærinn sem við búum í heitir Leeuwarden, um 90 þús.manna borg og er í norður Hollandi, svæðið sem við búum heitir Friesland og er í raun annað samfélag innan Hollands, hefur sitt eigið tungumál og fána, fólk frá Frieslandi hefur orð á sér meðal Hollendinga um að vera öðruvísi og nokkuð sérviturt en við verðum nú ekki varir við mikinn mun, þetta eru allt bara Hollendingar í okkar augum!
   Samfélagið hérna er mjög þægilegt, Hollendingar eru ekki mjög stressað fólk og er viðmót þeirra nokkuð gott, þeir eru duglegir og vinna langa vinnuviku. Hollendingar eru mjög frjálslyndir í hugsun og eru ekki mikið fyrir boð og bönn eins og landið hefur orð á sér fyrir.  Að öðru leyti eru Hollendingar ekki öðruvísi en Íslendingar eða aðrir Evrópubúar, ekki við fyrstu sýn a.m.k.
Lifnaðarhættir Hollendinga eru nokkuð líkir okkar en þó eru nokkur atriði sem við söknum að heiman og fyrst ber að nefna heitu pottana, en það er ekki svoleiðis hérna þrátt fyrir nokkurn kulda sem maður hefði haldið að myndi nú laða fólk að pottunum þannig að oft eftir æfingar hugsar maður með söknuði til Vignis Sveins í íþróttamiðstöðinni.
    Hérna er lágt verðlag sem kemur sér ákaflega vel, matvara og drykkir eru mun ódýrari eins og nánast allt, öll raftæki og tölvubúnaður þannig að verðlagið myndi án nokkurs vafa vera það sem maður saknar minnst að heiman.
    Þá að körfuboltanum, deildin hérna er töluvert sterkari en heima enda mun fleiri leikmenn sem hafa ekkert annað en að spila körfubolta að atvinnu og æfa því tvisvar á dag, það er í raun það sem gerir deildina sterkari því Hollendingarnar í deildinni eru að svipuðum gæðum og heimamenn á Íslandi en mikill fjöldi útlendinga gerir deildina sterkari en hér eru 3 kanar leyfðir og auk þess eru öll lið með aðra útlendinga, Evrópumenn og svo einhverja kana sem hafa grafið upp einhvern ættingja á einhverjum af evrópsku nýlendunum eða hafa verið nógu lengi í Evrópu og hafa þess vegna tvöfalt ríkisfang.
Hérna eru mun fleiri hávaxnir leikmenn og er því leikstíll liðanna oft öðruvísi og reyna liðin meira að koma boltanum á þá en heima þar sem mikið er um góðar skyttur og leikur þeirra miðast oft af því að fá þær opnar, hérna er spiluð ákaflega lítil svæðisvörn og nánast engin pressuvörn þannig að liðin eru lítið fyrir að breyta til í varnarafbrigðum.
    Eins og staðan er í dag er mjög líklegt að ég muni vera áfram í Evrópu að spila, þetta er það sem maður hefur stefnt að og stefni ég hærra næsta vetur, það er ekki komið á hreint hvar það verður en ég er opinn fyrir öllu, jafnvel að vera áfram í Hollandi í stærra liði eða færa mig annað og væri þá gaman að prófa að búa í suður Evrópu, en annars er það bara þannig að maður veit aldrei hvað verður næsta vetur en ef það gengur ekki upp þá er maður að sjálfsögðu mættur í Snæfell að herða menn eins og Helga Reyni og Lýð og borða kvöldmatinn hennar Öldu Páls.
En þetta er skemmtileg vinna og því um að gera að reyna að vinna við þetta meðan maður getur og skoða heiminn í leiðinni sem er stefnan hjá mér.  Ég er mjög bjartsýnn fyrir hönd Snæfell gegn KR, þótt þeir hafi endað neðar en þeir hefði það mjög auðveldlega getað snúist við hefðu þeir haft leikinn gegn þeim í Stykkishólmi um daginn.
    Það sem gerir mig þetta bjartsýnan er fyrst og fremst karakter leikmanna og þjálfara Snæfells því liðin eru svipa sterk á pappírunum, Snæfell hefur farið í gegnum þetta seinustu 2 ár og vita því um hvað þetta snýst og ég veit að Bárður kemur mönnum í rétta gírinn fyrir þessa leiki og mun koma KR-ingum á óvart á einhvern hátt, einnig eru stuðningsfólk Snæfells ótrúlegir þegar kemur í úrslitakeppni og það hljómar kannski eins og klisja en það er bara þannig að góð stemmning og hvatning getur komið mönnum yfir þær hindranir sem eru á veginum og mörg dæmi eru um hvernig leikir hafa snúist í Hólminum þegar allt varð vitlaust. Mín spá er því 2-0 fyrir Snæfell en það er með þeim fyrirvara að fólk fjölmenni í vesturbæinn og hvetji, því fátt er verra fyrir heimalið en að láta áhorfendur aðkomuliðsins yfirgnæfa sig…
                                      Hlynur B

Af http://www.woonaris.nl