Fimmtudagur , 23. nóvember 2017

Björgunaræfing í Baldri

Áhöfnin á Breiðafjarðarferjunni Baldri æfði í gær og prufaði í fyrsta sinn sjósetningu á stórum gúmmíbjörgunarbát sem rúmar 100 manns.  Báturinn og útbúnaður hans er sá fyrsti sinnar tegundar í farþegaskipum hér á landi.  Hann er útbúinn svokölluðu þurrfóta kerfi sem byggir á því að farþeginn kemst um borð í hann þurrum fótum. 

Björgunarbáturinn tengist skipinu með uppblásinni rennu líkt og í flugvélunum og þar renna farþegar sér beint um borð í bátinn.  Búnaðurinn byggist á því þegar bátnum hefur verið skotið út úr gálganum á skipinu þá eru sérstakar vindur sem strekkja bátinn að skipinu.  Þær eru ekki háðar aflkerfinu í skipinu og hægt að nota handvirkt ef t.d. yrði rafmagnslaust.  Utan á ferjunni eru lagnir með böndum sem eru annarsvegar föst við björgunarbátinn og hinsvegar föst við vindurnar um borð í skipinu.  Þegar svo bátnum er skotið út frá skipinu þá strekkist á böndunum og þau skjótast úr lögnunum þá þarf áhöfnin bara að hífa bátinn á sinn stað með vindunum.  Í tillfelli Baldurs eru það hurðir á sitthvorri síðu skipsins.  Þegar báturinn er kominn þar á sinn stað þá er hurðin opnuð og rennan blásinn upp og þá geta farþegar rennt sér um borð í björgunarbátinn. 
      Tveir slíkir björgunarbátar eru um borð í Baldri, einn á hvorri hlið, þannig að þar rúmast 200 manns.  Að auki eru svo fimm minni bátar sem hver um sig rúmar 25 manns og eru tengdir þessu sama kerfi.  Þeir eru dregnir að stóra bátnum og tengdir honum með strektri rennu.   Björgunarbátarnir eru allir hannaðir þannig að þeir rétta sig alltaf við þó þeir lendi á hvolfi.  Kröfur um slíkt komu fram í kjölfar Estoniu slyssins á Eistrasalti á sínum tíma en þá lentu margir björgunarbátar á hvolfi og náðist ekki að rétt þá við með hörmulegum afleiðingum.  Bátarnir eru einnig útbúnir með lensibúnaði ef sjór kæmist í þá.   
      Björgunarbátarnir og búnaðurinn er þróaður af danska fyrirtækinu Viking en Sæferðir tóku einmitt þátt í þróunarvinnu búnaðarins á sínum tíma.  Þá var búnaðurinn settur um borð í Brimrúnina og prófaður í foráttuveðri út á Breiðafirði, til þess að prufa hann við erfiðar aðstæður.  Æfingin og prófunin í gær tókst mjög vel.  Það tók ekki nema fáeinar mínútur að koma bátnum út og að skipinu og tengja.  Viðstaddir æfinguna voru líka fulltrúar frá danska fyrirtækinu og frá Siglingastofnun.  En góður búnaður kostar sitt líka og er áætlað að hann verði um 15-20 milljónir þegar allt er komið.

 

Sá stóri kominn í sjóinn og að blásast upp og er ekki langt frá hurðinni sem hann mun svo tengjast.
Stóri báturinn uppblásinn og tengdur Baldri.
Allir komnir um borð og verið að blása upp einn af minni bátunum.
Sá litli tengdur þeim stóra sem er tengdur Baldri.