Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Ferðaþjónustumál og atvinnumál flytjast frá Eflingu til Stykkishólmsbæjar.

Aðalfundur Eflingar var haldinn í dag og var ágæt mæting á fundinn. Flutt var skýrsla stjórnar og reikningar félagsins og farið yfir framkvæmd Dönsku daganna.  Höfðu Sæþór Þorbergsson og Magnús Ingi Bæringsson sætaskipti í stjórn, en að öðru leiti er aðalstjórn óbreytt.  Berglind Þorbergsdóttir kom inn í varastjórn en út fór Hildibrandur Bjarnason. 

Flutt var tillaga um breytingu á starfsemi Eflingar sem felur það í sér að Efling tekur aftur við umsjón og framkvæmd Dönsku daganna en frá félaginu flyst Upplýsingamiðstöðin og rekstur tjaldvæðisins til bæjarfélagsins.  Sæferðir munu sjá um upplýsingamiðstöðina og Golfklúbburinn Mostri tekur að sér umsjón tjaldsvæðisins.  Markaðs- og kynningarmál verða í höndum bæjarskrifstofu og atvinnumál verða í umsjá bæjarritara í nánu samstarfi við Atvinnumiðlun Vesturlands.  Ekki verður ráðinn framkvæmdastjóri Eflingar m.a. af þessum ástæðum. Samþykkt var tillaga Péturs hótelstjóra Hótels Stykkishólms, um að því yrði beint til bæjarstjórnar að gamli vegurinn um Kerlingarskarð verði varðveittur.  Einnig kom fram hugmynd frá Dagbjörtu í Sjávarborg um að hér yrði Tröllum gert hátt undir höfði í tenglsum við ferðaþjónustu.  Rita Hvönn kynnti hugmyndir Seakayak Iceland um Hvítasunnumót í Kajaksiglingum sem halda á í vor.

Með breyttu hlutverki Eflingar munu helstu verkefnin vera að móta markaðs- og atvinnustefnu fyrir Stykkishólm, að stuðla að sameiginlegu kynningarátaki fyrir bæinn, vinna að áframhaldandi göngustígagerð, halda námskeið af ýmsu tagi og þróa hugmyndir af ýmsum toga.