Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Framkvæmdir hafnar nið’rá plássi

Borgarverk hefur nú hafið framkvæmdir við yfirborðsfrágang og fegranir í miðbænum.  Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri skrifaði af því tilefni í 12.tbl. Stykkishólms-Póstsins og greindi frá framkvæmd verksins.  Myndir eru Stykkishólms-Póstsins.

„Nú eru hafnar framkvæmdir við yfirborðsfrágang og fegrun miðbæjarins.  Framkvæmdirnar koma til með að standa yfir í vor og sumar og er áætlað að þeim ljúki þann 1. ágúst.  Borgarverk er þessa dagana að hefjast handa við jarðvegsvinnu og lagningu frárennslislagna vegna gerðar nýrra gatna, göngustíga og bílastæða.  Fyrsti áfangi verksins sem lýkur 1. maí er jarðvegsvinna á svæði sem afmarkast frá Egilshúsi að Amtsbókasafninu.   Síðari áfanginn nær svo frá Amtsbókasafninu að Fimm fiskum og verður jarðvegsvinnu við þann áfanga lokið 1. júní.  Um leið og fyrri áfangi jarðvegsframkvæmda lýkur tekur hellulagningarverktakinn Grásteinn til við að helluleggja og malbika götuna, göngustíga, bílastæði og torg.  Ásamt því að hlaða vegg sem afmarkar bílastæði við Egilshús frá göngustíg sem liggur frá Egilshúsi meðfram Frúarhólnum að Norska húsinu og Ráðhúsinu.
Gengið verður frá götunni frá Hafnargötu að Amtbókasafninu með sama  hætti og Skólastígnum.  Það er að segja að gatan og gangstéttin verður jafn breið og Skólastígurinn og með samskonar hellulögn.  Við enda götunnar á milli Norska hússins og Amtsbókasafnsins tekur síðan við hellulagt torg.   Bílastæðin við Egilshús verða svo malbikuð ásamt bílastæðum við Amtsbókasafnið og götunni frá bókasafninu að Fimm fiskum.   Til nánari glöggvunar má finna teikningar af yfirborðsfrágangi miðbæjarins á www.stykkisholmur.is og einnig eru teikningarnar aðgengilegar uppi á Ráðhúsloftinu.  Öllum áhugasömum er velkomið að líta við.
Á meðan á framkvæmdum stendur munu verktakarnir taka tillit til íbúa og þeirra sem þurfa að sækja atvinnu, verslun eða þjónustu á svæðinu eins og mögulegt er.  Ég vil einnig nota tækifærið hér og biðja þá sem að þurfa að fara um svæðið á meðan á framkvæmdunum stendur að gæta fyllstu varúðar og sýna tillitsemi.“
                                                                                                                  Erla Friðriksdóttir,
                                                                                                                  bæjarstjóri


Planið við Egilshús bíður eftir gröfunni.