Gobbí dí gobb

Það bárust skemmtileg hljóð um Stykkishólm  í morgun-blíðunni á sunnudaginn, hljóð sem eiga þó vafalaust eftir að heyrast oft í sumar.  Þar var á ferð Sæþór á Narfeyrarstofu í æfingaferð á stóru hestakerrunni.  Hann lét sér nú nægja að sitja sem farþegi og lét aðra um taumana.

Gömlu jaxlarnir í hestamennskunni þeir Högni Bærings og Svavar Edilons tóku í taumana og fóru létt með.   Einnig tóku í taumana Hjalti Odddsson og Hrannar sonur hans sem ætlar að vera kúskur á vagninum í sumar.  Fyrrum eigandi vagnsins var mættur ásamt syni sínum til að kenna mönnum tökin.  Eftir því sem best er vitað þá tókust æfingar vel og óku menn undir hámarkshraða.   En hraðinn ku víst miðast við það að ekki megi fara það hratt að hárgreiðslan ruglist og tókst þeim það nokkuð vel, þó að vísu einhverjir hafi þurft að greiða sér eftir túrinn þegar Högni hélt í taumana.