Háskólasetur í Stykkishólmi hefur starfsemi.

Háskólasetur Snæfellsness hefur hafið starfsemi sína, en aðsetur þess er á jarðhæð ráðhússins í Stykkishólmi.  Tómas G. Gunnarsson, dýrafræðingur, var ráðinn forstöðumaður í lok mars og er hann fluttur í Stykkishólm ásamt fjölskyldu.

Hann lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1997, MS prófi í dýravistfræði frá sama skóla árið 2000 og doktorsprófi í stofnvistfræði frá University of East Anglia í Bretlandi 2004. Tómas hefur einkum fengist við rannsóknir á fuglastofnum. Hann hefur gegnt rannsóknastöðu við University of East Anglia frá 2004 og hefur einnig sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands. Tómas er kvæntur Lindu Rós Sigurbjörnsdóttur, sjúkraþjálfara, og eiga þau synina Bjart og Gunnar.

 

Háskólasetur Snæfellsness er sjálfstætt starfandi rannsóknasetur Háskóla Íslands, sem einkum er ætlað er að stunda og efla rannsókna- og fræðastarf á svæðinu. Lögð verður áhersla á rannsóknir á náttúru Snæfellsness og Breiðafjarðar í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir og háskóla. Þá mun Háskólasetrið vinna að því að efla tengsl Háskóla Íslands og annarra rannsóknastofnana við atvinnu- og þjóðlíf á Snæfellsnesi. Setrið mun vinna náið með Náttúrustofu Vesturlands.

 

Tilkoma setursins á sér nokkra forsögu en segja má að hugmyndin hafi formlega tekið að þróast eftir að starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands fóru á fund forstöðumanns Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands í nóvember 2003 með tillögu um að Háskólinn kæmi á fót rannsóknasetri í náinni samvinnu við Náttúrustofuna. Fulltrúar Háskólans voru strax jákvæðir, einkum vegna þess að með þessu móti væri ekki komið á fót nýrri einmenningsstofnun, heldur gæti starfsmaður setursins strax gengið inn í þá starfsemi og aðstöðu sem fyrir væri á Náttúrustofu Vesturlands. Þá skipti einnig máli að ekkert annað setur Háskólans var fyrir á Vesturlandi en Háskólinn vill gjarnan þjónusta alla landsbyggðina.

 

Í fyrstu stjórn Háskólaseturs Snæfellsness sitja sex fulltrúar, þar af eru þrír tilnefndir af Háskóla Íslands. Formaður er Rögnvaldur Ólafsson, dósent í eðlisfræði og forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands en ásamt honum eru þeir Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði og Arnþór Garðarsson, prófessor í dýrafræði, fulltrúar Háskólans. Fulltrúi Stykkishólmsbæjar er Magnús I. Bæringsson, sjávarútvegsfræðingur, en Menja von Schmalensee, líffræðingur, er fulltrúi Náttúrustofu Vesturlands. Fulltrúi Héraðsnefndar Snæfellinga er Guðbjörg Gunnarsdóttir, landfræðingur og þjóðgarðsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

 

Rannsóknir á vegum Háskólaseturs Snæfellsness eru þegar hafnar. Um er að ræða rannsóknir á vistfræði vaðfuglastofna og tilvist þeirra í fjörum en mikilvægi Breiðafjarðar fyrir vaðfugla á vorfari er á heimsmælikvarða. Vonir standa til að rannsóknir á öðrum þáttum lífríkis á svæðinu geti einnig hafist á þessu ári, ekki síst með aðkomu háskólanema í framhaldsnámi í náttúrufræðum. Frekari uppbygging og stefnumótun Háskólasetursins verður ofarlega á verkefnaskrá á næstu misserum en ljóst er að hér er um að ræða spennandi tækifæri til uppbyggingar á þekkingu og til að auka fjölbreytni í atvinnu og menntun á Snæfellsnesi.

 

Háskólasetur Snæfellsness verður kynnt íbúum svæðisins á opnum fundi síðar í maí. Hann verður auglýstur nánar þegar þar að kemur.

Tómas G. Gunnarsson