Hvernig mun fjármunum til bygginga reiðaðstöðu verða ráðstafað á Snæfellsnes?

Hestamenn í byggingarhugleiðingum

Hvernig mun fjármunum til bygginga reiðaðstöðu verða ráðstafað á Snæfellsnes?

Í byrjun febrúar ákvað ríkistjórnin að leggja 270 milljónir í uppbyggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála á landinu og í þann sjóð geta einungis hesta-mannafélög innan Landssambands hestamannafélaga, sótt.  Til þessa sjóðs horfa nú hestamenn á Snæfellsnesi en vandinn er hins vegar sá að einungis heildarsamtök þeirra þ.e. Snæfellingur getur sótt um.  Hestamenn á nesinu þurfa því að koma sér saman um hvernig skuli sótt um styrkinn og hvernig skuli skipta honum ef hann fæst.  Um þetta funduðu hesta-menn í Grundarfirði í gær-kveldi.  Niðurstaða fundarins lá ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun en fróðlegt að sjá hvort sameiningarviljinn hafi orðið hrepparígnum yfirsterkari. 
Styrkupphæðin sem hægt er að sækja um er frá 5-30milljónir allt eftir því hve sótt er um fyrir stórt hús.  Hægt er að sækja um styrk allt að 30 milljónum til byggingar reiðhallar sem er þá með stæðum fyrir áhorfendur og hreinlætisaðstöðu og gólffleti reiðvallar frá 40×20 metrum.  Styrkur fyrir reiðskemmu er allt að 15 milljónum en þar er ekki gert ráð fyrir öðru rými en gólffleti hússins sjálfs sem er á bilinu 12×10 til 40×20 metrar og er þá húsið ekki ætlað til sýningahalds eða fyrir stórviðburði.  Síðan er hægt að sækja um styrk allt að 5 milljónum fyrir reiðskála sem er aðstaða fyrir tamningamenn til að vinna með hesta innandyra og er gólfflötur slíkrar byggingar að jafnaði 12×10 metrar.
Vonir hestamanna hér í bæ miðast að því að hestamenn á Snæfellsnesi sameinist í umsókn um fullan styrk hjá landbúnaðarráðuneytinu sem yrði svo deilt niður til byggingar reiðskemma í bæjarfélögunum.  En það lá þegar ljóst fyrir að bæði Hólmarar og Grundfirðingar hyggja á byggingu slíkrar skemmu.  Ólsarar eru einnig að velta slíku fyrir sér.  Þannig að e.t.v. ættu hesta-menn að keyra á umsókn um 30 milljónir undir þeim formerkjum að þeir kæmu sameinaðir að þeirri umsókn.  Landbúnaðarráðuneytið þar sem sameiningarsinnaðir framsóknarmenn ráða ríkjum vill varla stuðla að sundrungu hestamanna og þar með bæjarfélaga, með því að vilja negla þá upphæð á eina byggingu í einungis einum bæ. 
Það er því spennandi að sjá hvort hestamenn nái að sameinast um umsókn og ef styrkur fengist að skipta honum jafnt niður.
srb