Fimmtudagur , 23. nóvember 2017
Gunnar Kristjánsson Grundarfirði gerir athugasemdir við fréttina hér að neðan og finnst þar vera kynt undir ríg á milli sveitarfélaganna.

Hrepparígur

Gunnar Kristjánsson Grundarfirði gerir athugasemdir við fréttina hér að neðan og finnst þar vera kynt undir ríg á milli sveitarfélaganna.

Sæll ritstjóri góður.   Ég veit að þú ert ungur maður á besta aldri, vafalítið alinn upp við ákveðinn ríg milli sveitarfélaganna hér á Snæfellsnesi. Sá rígur á að heyra fortíðinni til í nútímaþjóðfélagi þar sem samgöngur og tækni hafa stytt svo leið milli manna að við sem búum á þessu nesi eigum að líta á okkur sem eina heild. Ég geri ráð fyrir að þú vitir ritstjóri góður hvaða ábyrgð þú berð þegar þú heldur úti miðli þínum þótt þú eigir hann sjálfur, og að skrif af þessu tagi eru ekki til þess fallin að auka samheldni milli byggðarlaganna. Við val á aðilum í ábyrgðarstöður er vafalítið farið eftir ákveðnum fyrirfram skilgreindum viðmiðum sem snerta viðkomandi starf. Ég tek það fram að ég er óbreyttur þegn í einu sveitarfélaginu á Snæfellsnesi þ.e Grundarfirði og hef því ekkert með ráðningu bæjarstjórans að gera, mér hins vegar sárnar að sjá hvernig þú kyndir undir ríg milli sveitarfélaganna hér og í Stykkishólmi með dæmalausu niðurlagi fréttarinnar. Ég veit að ég tala fyrir munn margra þegar ég segi að skrif af þessu tagi eigi ekki að sjást hjá ábyrgum fréttamiðlum.
Með vinsemd. Gunnar Kristjánsson Grundarfirði.  

aths.ritstjóra
Ja, hérna, hvar er húmorinn?  Það má segja að hér sannist máltækið ,,oft verður lítið fynd að stórri synd“. Ritstjórinn þakkar fyrir það að flokkast enn undir unga menn og vonar að það haldist þegar sextugs aldrinum er náð en hann verður hins vegar alltaf á besta aldri.  Ég veit nú ekki hvernig uppeldinu er fyrirkomið í Grundarfirði en þegar ritstjórinn ólst upp í Stykkishólmi rétt eftir miðja síðustu öld þá var hann ekki alinn upp við ríg á milli sveitarfélaganna.  Því er þó ekki neitað að það þótti ekki leiðinlegt að vinna innbyrðis viðureignir í fótbolta, körfu eða annarri íþróttakeppni eins og jafnan er á milli nágrannaliða.  Ekki veit ég um uppeldið á Gunnari en hafi hann verið alinn upp við ríg á milli sveitarfélagana þá er þessi athugsemd skiljanleg sem og sú fullyrðing að ritstjórinn hafi  verið alinn upp við ríg á mili sveitarfélaganna.  Ég læt lesendur um það að dæma um hvoru megin ,,rígurinn” er, í fréttinni eða skrifum Gunnars.    
   Það þótti fréttnæmt að sjá Hólmarann, Ásthildi Sturludóttur meðal umsækjenda um stöðu bæjarstjóra í Grundarfirði og óneitanlega var hún mjög hæf í það embætti.  Með mjög góða menntun og góða þekkingu á sveitarstjórnarmálum ekki síst hér á nesinu og Vesturlandi.  En auðvitað velja Grundfirðingar sem og aðrir sína bæjarstjóra eða hvað það nú er hverju sinni, samkvæmt sínum forsendum og viðmiðum.  Niðurlag fréttarinnar er sett fram í glensi og á ekki rót sína í meintum ,,ríg“ sem Gunnar heldur fram að ritstjóri hafi alist upp við.  Hvar er spaugsemin?  
 

Með ritstjórakveðju úr logninu í Stykkishólmi