Fimmtudagur , 23. nóvember 2017

Iðandi líf í Hólminum

Eins og allir vita sem hafa snefil af fegurðarskyni , þá er fallegt í Stykkishólmi og ólýsanlegt er þegar að sólin er að setjast bakvið Vestfirðina eins og sést á myndinni sem tekin var um eittleytið í nótt.

Ferðamannastraumurinn er byrjaður þrátt fyrir  að fótboltabölið sé í hámarki núna með HM í Þýskalandi. Á tjaldstæðinu er talsvert af ferðalöngum og á túninu bakvið bankann eru 40 víkingar, innlendir og erlendir með víkingahátíð. Þá iðar mannlífið á hafnarsvæðinu, Sæferðir með sína umsvifamiklu túristastarfsemi og eyjabátar á leiðinni út í eyjasæluna . Þá voru nýjustu sægreifarnir Ellert á Lunda og Þorbergur á Palla Odds á leiðinni út í morgun á hin fengsælu fiskimið í Þórishólmadýpinu  og er næsta víst að lúða eða annað fiskmeti verður á þeirra disk næstu vikuna.

Góð þáttaka var í kvennahlaupinu  í blíðskapar veðri sem er oftast hérna og var hægt að velja um þrjár vegalengdir, Rarik afleggjara, flugvallarafleggjara og Ögursafleggjara. Konur á öllum aldri tóku þátt og fengu frítt í sund á eftir.

Ljósm.Símon Sturluson