Fimmtudagur , 23. nóvember 2017

Karlakór Reykjavíkur í heimsókn

Félagar úr Karlakór Reykjavíkur eru nú í sinni árlegu sumarútilegu með fjölskyldum sínum.  Þetta árið ákváðu þeir að koma í Stykkishólm og munu syngja hist og her um bæinn svona eftir því sem tækifæri gefst í dag.

Nú þegar klukkan er 14 hér í bæ þá hafa þeir þegar sungið tvisvar sinnum, fyrst í kapellu systranna í klaustrinu þar sem margir voru mættir til að hlýða á söng þeirra.  Og svo sungu þeir á Hafnargötunni,neðan við Þinghúshöfðann í skjóli fyrir vestan logninu sem fer örlítið hraðar yfir núna en venjulega, þó ekki það mikið að greiðslan ruglist að ráði.  Um tíuleytið í kvöld mæta þeir svo á sama stað og syngja en halda svo upp Aðalgötuna og syngja á pallinum hjá Helga Eiríks.  Um það leyti ættu þeir að vera orðnir vel söngæfðir og hljóma sem aldrei fyrr.

Félagar Karlakórs Reykjavíkur undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar.
Frissi gefur tóninn.