Fimmtudagur , 23. nóvember 2017

Listrænt bílaverkstæði í Stykkishólmi!

Þórði Magnússyni og starfsmönnum hans í fyrirtækinu Ásmegin er  ýmislegt til lista lagt í orðsins fyllstu merkingu.  Þó verkefni þeirra séu flest tengd bílum eðli málsins samkvæmt þegar um bílaverkstæði er að ræða.  Þá koma líka inn önnur verkefni sem eru með öllu ótengd bílum og það á við það verkefni sem þeir hafa verið að vinna að nú að undanförnu. 

 Þá koma líka inn önnur verkefni sem eru með öllu ótengd bílum og það á við það verkefni sem þeir hafa verið að vinna að nú að undanförnu.  Það byggir að vísu á því að sprautuklefinn sem er á verkstæðinu er mjög fullkominn og nýtist því líka í annarskonar sprautun en bílasprautun.
     Nú eru þeir að vinna við að sprautulakka glæra filmu yfir ljósmyndir eftir ljósmyndarann Friðrik Örn.  Ljósmyndirnar eru prentaðar á þunnar álþynnur, þær stærstu í stærðinni 150×110 cm .  Myndirnar eru sprautaðar oftar en einu sinni og pússaðar á milli og þá er betra að ekki komi rispa, því þá er myndin ónýt.  Myndirnar verða svo sendar suður aftur þar sem þær munu fara á sýningu. 
      Stykkishólms-Pósturinn sló á þráðinn til Friðriks Arnars og innti hann eftir því af hverju hann sendir myndirnar hingað í vinnslu og um hvað þessi sýning snýst? 
Friðrik tjáði blaðamanni það að hann hefði haldið sig mikið á Snæfellsnesi undanfarin ár m.a. við að taka ljósmyndir af vitum, sem hluti af verkefni um vita á Íslandi.  Síðan hefði það komið þannig til að Snæfellsbær hefði boðið honum að halda sýningu sem hann fyrirhugaði í Malarrifsvita.  Aðstæður breyttust þó og fluttist verkefnið til Seltjarnarness og er orðið hluti af sýningunni EILAND sem opnar n.k. laugardag í Gróttuvita og vitavarðarhúsinu þar.  Fimm listamenn koma að sýningunni og hafa undirbúið og unnið efni á sýninguna talsvert mikið héðan frá Snæfellsnesi sem og kemur sterkt fram í verkum þeirra.  Hann hefði á þessum tíma kynnst mörgu fólki hér á Nesinu og ekki síst í Stykkishólmi.  Þórður hefði unnið fyrir hann áður og hann væri mjög ánægður með handverkið frá honum að hann vildi að þessi vinna á myndunum fyrir þessa sýningu yrði líka unnin hér.
Sýningin í Gróttu er í samstarfi við Sjóvá, Seltjarnarnesbæ og Siglingastofnun.  Von Friðriks er sú að Stykkishólmsbær sjái hag  sinn í því að fá Eilandshópinn til að sýna á Nesinu. 
      Nánar um sýninguna og listamennina sem standa að baki henni er að finna á www.eiland.is