Mikið líf hjá Mostra

Golfklúbburinn Mostri er eins og kunnugt er búinn að færa út kvíarnar og sér nú um tjaldsvæði bæjarins auk umhirðu golfvallarins.  Tjaldsvæðið og golfvöllurinn liggja nánast saman og tengjast  við golfskálann því tjaldsvæðið og golfvöllurinn eru sitthvoru megin við skálann.  Þar af leiðandi er klúbburinn nú kominn með fjóra fasta starfsmenn sem sjá um þessa starfsemi og standa vaktina til skiptis.   

Golfskálinn og miðstöð tjaldstæðisins er opinn mán.-föstud. kl.10:00-22:00 og um helgar frá kl.08:00-20:00.  
     Það er einnig mikið líf í starfsemi golfklúbbsins og kennir þar margra grasa jafnt fyrir vana sem óvana.  Á mánudagskvöldum er t.d. hægt að panta tíma í golfkennslu fyrir einstaklinga eða hópa.

Þriðjudagskvöldin eru kvennakvöld en þá hittast konurnar kl. 18:00 og spila saman.

Alla miðvikudaga kl. 18:00 í sumar verða karlakvöld þar sem karlkyns meðlimir Mostra hittast og skipta sér upp í hópa og spila saman.

Unglingaæfingar eru þegar hafnar en þær verða tvisvar í viku í sumar, á þriðjudögum kl. 18:00 og fimmtudögum kl. 19:30. Allir unglingar sem skráðir eru í Mostra eru velkomnir þar.

Barnagolf verður fyrir 9 ára til 13 ára en þrjú námskeið verða haldin í sumar. Fyrsta námskeiðinu er nú lokið en næsta námskeið byrjar bráðlega.
     Þeir golfáhugamenn sem vilja ekki missa úr leik á HM þurfa ekki að hafa áhyggjur því allir leikirnir á HM í knattspyrnu eru sýndir í golfskálanum.