Fimmtudagur , 23. nóvember 2017

Minningartónleikar

Minningartónleikar voru haldnir í Stykkishólmskirkju s.l. sunnudag sem vel á fjórða hundrað gesta sóttu.  Góðir gestir voru komnir að til að minnast Sigrúnar Jónsdóttur organista og skólastjóra tónlistarskólans.

Minningartónleikar voru haldnir í Stykkishólmskirkju s.l. sunnudag sem vel á fjórða hundrað gesta sóttu.  Góðir gestir voru komnir að til að minnast Sigrúnar Jónsdóttur organista og skólastjóra tón-listarskólans.  Fór dagskráin afar vel fram og var hún mjög fjölbreytt.  Ef hægt er að tala um senuþjófa þá voru það þær Sunna Þórey, Hrefna Rós, Halldóra Kristín og Anna Soffía sem stigu á stokk rétt fyrir hlé.  Þær fluttu stutta ræðu þar sem fram kom að þær hefðu haldið basar, sungið lög, selt perluskraut sem þær höfðu perlað, flutt leikritið „Sá ég Spóa“ og ýmislegt annað til að safna fyrir orgeli í kirkjuna.  Færðu þær Unni Valdimarsdóttur fyrir hönd sóknarnefndar ávísun upp á 30.000 krónur í orgelsjóðinn. En það voru fleiri sem létu fé af hendi rakna í söfnunina.  Tæma varð mjólkurbrúsann góða þrisvar sinnum á meðan á tónleikum stóð og að loknum tónleikum var talið upp úr honum 674.200 krónur!!  En í tengslum við tónleikana safnaðist vel yfir milljón króna og er talið að sú fjárhæð nái að greiða sem samsvarar einni pípu í orgelið sem kostar á bilinu 1350 – 1500 þúsund.  Aðstandendur tónleikanna vildu koma á framfæri þökkum fyrir góðar viðtökur tónleikagesta og annarra við þessu framtaki og ekki síst allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn. 
     Enn eiga eftir að berast framlög í söfnunina sem vitað er um og vakin athygli á því hér að áfram verða seld minningar- og gjafakort í kirkjunni þar sem fjármagn rennur í orgelsjóðinn.  Er óskandi að vel gangi að safna – svo vígja megi orgelið árið 2008 þegar Sigrún hefði orðið fertug!
Hægt er að leggja inn á reikning í Kbbanka í Stykkishólmi Bankanúmer 309-18-930076 Kennitala reikningseiganda er:  630269-0839.      Um það verður ekki deilt hver áhrif svona tónleika hafa inn í samfélagið okkar.  Tónlist af ýmsum toga víkkar sjóndeildarhringinn, framúrskarandi tónlistarfólk verður fyrirmyndir ungra tónlistarmanna og þátttaka í tónleikum sem þessum er gefandi.  Það var mjög gaman að hlýða á barnakórinn sem þarna steig á stokk og að sjá sönggleðina úr andlitum þeirra sem þar tóku þátt snerti einhverja strengi í tónleikagestum.  Vonandi fáum við meira að heyra….

Sigrún Björk Sævarsdóttir söng með félögum úr Barnakór Grunnskólans í Stykkishólmi undir stjórn Hólmfríðar Friðjónsdóttur.