Ný Breiðafjarðarferja

Fulltrúar Sæferða ehf. tóku á móti nýrri ferju  í Hollandi í gær sem væntanlega er til landsins í þessum mánuði.

Þriðjudaginn 7. mars veittu fulltrúar Sæferða ehf. í Stykkishólmi viðtöku bílaferju, m.s. „Oost Vlieland“ í Hollandi sem fyrirtækið hefur keypt og kemur í staðinn fyrir ferjuna Baldur. Skipið er mun stærra,  eða 62 metra langt í stað 40 metra sem Baldur er. Nýja ferjan mun taka á milli 45 – 50 fólksbíla eða 6 vöru-flutningabíla með tengivagna og þá færri fólksbíla, en Baldur tók að hámarki 19 – 20 fólksbíla.. Farþega-fjöldi má vera allt að 350 manns. Skipið sem er byggt 1974 var allt endurnýjað 1994 og nú munu einnig fara fram á því nokkrar endurbætur. Þær  felast meðal annars í því að settur verður í það fullkomnasti öryggi- og björgunarbúnaður sem völ er á fyrir skip í þessum flokki. Skipið gengur 13,5 – 14,0  sjómílur sem styttir beina ferð frá Stykkishólmi til Brjánslækjar niður í ca. 2 klst. og 10 mín. í stað tæpra 3ja tíma eins og nú er. Skipið hefur nú verið tekið í slipp í ferjubænum Harlingen í Hollandi þar sem megnið af endurbótunum verða unnar auk þess sem það verður málað hátt og lágt. Svo heppilega vill til að þrátt fyrir stærðarmun skipanna þarf að gera mjög óveru-legar breytingar á ferjuaðstöðunni í Stykkishólmi og Brján slæk áður en skiptin fara fram, en eins og vitað er eru ferjubrýrnar á þessum stöðum nánast sérhannaðar fyrir núverandi ferju. Verið er að undirbúa endurbætur og styrkingu á bryggjunni í Flatey sem væntanlega verður lokið fyrir næsta haust. Það kemur samt ekki í veg fyrir að nýja ferjan mun geta notast við bryggjuna eins og nú er þangað til.
Ferjan Baldur sem þjónað hefur ferjuleiðinni s.l. 16 ár hefur verið seld til Finnlands og munu nýir eigendur sækja skipið í lok marsmánaðar og mun það sigla úr höfn í Stykkishólmi undir Finnskum fána 1. apríl n.k. Stefnt er að því að nýja ferjan verði komin á sama tíma þó vera megi að örfáir dagar geti hugsanlega liðið á milli og ræður þar mestu að góð veður verði á siglingunni yfir hafið.