Sesselja afhendir gjafir

Sú mikla atorkukona Sesselja Pálsdóttir hefur verið dugleg við ýmsar safnanir fyrir hlutum og tækjum sem koma sér vel fyrir samfélagið hér í Stykkishólmi.  Í dag kom hún færandi hendi og afhenti Dvalarheimilinu hljóðtæki og dagljósarlampa að gjöf.

Hljóðtækið er samskonar og Sesselja hefur áður fært Grunnskólanum og vonast Sesselja til að tækið komi til með að nýtast íbúum Dvalarheimilisins vel.  Það má t.d. nota í upplestri, við leikfimiæfingarnar og aðrar samkomur þar sem þörf er á að hið talaða mál berist vel.

Það kom fram í máli Sesselju að félag eldri borgara Aftanskin, hafi gert það mögulegt að kaupa tækið því það hafi lagt til það fjármagn sem upp á vantaði til kaupanna og þakkaði hún Þórnýju formanni og stjórn Aftanskins sérstaklega um leið og hún bað um þakkir til félags eldri borgara í hér í bæ.
    Sesselja afhenti einnig dagljósalampa samskonar þeim sem hún hafði áður gefið og hefur reynst vel.  Benti hún á að rannsóknir hafi sýnt að ljós frá slíkum lömpum  geri fólki gott, sérstaklega í skammdeginu þegar dimmt er.  Dagljósalampinn var gjöf frá Sesselju og Þorbergi manni hennar sem örlítill þakklætisvottur fyrir þá hlýju og vináttu sem foreldrum þeirra var sýnd á Dvalarheimilinu þegar þau dvöldu þar.
   Sesselja var ekki hætt, því hún afhenti einnig bænum formlega bekki þá sem hún hefur safnað fyrir og var dreift víðsvegar um bæinn síðasta sumar en voru svo teknir inn í vetur.  Bekkirnir verða nú teknir fram aftur einn af öðrum og dreift um bæinn að nýju ásamt þeim bekkjum sem bætast nú við.

 

 

 

 

 

Sesselja og Erla bæjarstjóri á einum af bekkjunum góðu
Jóhanna Guðbrandsdóttir forstöðukona og Sesselja með tækin
Afhendingin fór fram í matsal Dvalarheimilisins