Þriðjudagur , 14. ágúst 2018

Talningu atkvæða í Stykkishólmi lauk kl. 00:48 og var kvöldið afar spennandi og mjótt á munum framan af. 92,6% kjörsókn var og af 738 atkvæðum voru 16 auðir seðlar eða ógildir. D-listi hlaut 382 atkvæði og L-listi 340 atkvæði.

Spennufall annarsvegar og vonbrigði hinsvegar.  Fréttaritarar Stykkíshólms-Póstins voru á vettvangi og brast á með miklu klappi og fagnaðarlátum á Hótel Stykkishólmi í herbúðum D-listafólks þegar lokatölur voru kynntar.

Á Fimm fiskum, herbúðum L-listafólks, var spennan mikil þegar fyrstu tölur komu þar sem sem aðeins munaði 4 atkvæðum og ekki síst þegar næstu tölur komu þar sem talið höfðu verið 500 atkvæði og skiptust þau hnífjafnt á milli listanna. 
Fyrstu viðbrögð Dlista eftir að úrslit voru kunn voru þau að þetta væri stórsigur stefnunnar sem verið hefur við lýði síðan 1974 og þeirrar stefnu sem boðuð hefur verið næsta kjörtímabil og ljóst að verið að vinna fyrir fólkið, Hólmara, og þetta sé það sem þeir vilji.   Nú muni verkin tala.
Fyrstu viðbrögð talsmanns L-listans voru vonbrigði, því vissulega hafi munurinn verið lítill en þó meiri nú en síðast og það væru þau óánægðust með.  En þessi mikla kjörsókn í Stykkishólmi (92,6%) sýndi þó að það væri ákveðin gerjun í gangi í bænum það væru margir sem kæmu að kjósa og það segir eitthvað.  Kosningamaskína D-listans væri bara öflugri og harðari s.s. símhringingar og smölun sem L-listinn hefði ekki verið duglegur í enda ekki aðferðir þeim að skapi.  En þetta kæmi þá bara eftir fjögur ár en þann tíma ætlaði L-listinn að verða kröftugur minnihluti, kröftugri en áður.