Víkingaskútan að taka á sig mynd

Þeir eru margir framkvæmda-mennirnir hér í bæ en ég held að Sigurjón Jónsson toppi þá alla og þó víðar væri leitað.  Á hans vegum eru nokkrir starfsmanna Skipavíkur nú að vinna að smíði skútu sem á enga sína líka.  Ég held við getum alveg alhæft sem svo að þessi skúta verði algerlega einstök í heiminum þegar hún verður sett á flot. 

Þeir eru margir framkvæmdamennirnir hér í bæ en ég held að Sigurjón Jónsson toppi þá alla og þó víðar væri leitað.  Á hans vegum eru nokkrir starfsmanna Skipavíkur nú að vinna að smíði skútu sem á enga sína líka.  Ég held við getum alveg alhæft sem svo að þessi skúta verði algerlega einstök í heiminum þegar hún verður sett á flot.  Bygging skútunnar er gamall draumur hjá Sigurjóni sem hann ætlar nú að láta rætast.  Lagið á skútunni er fengið frá langskipum víkingatímans og er sjálft Gaukstaðarskipið norska þar aðalfyrirmyndin en Gunnar Marel Eggertsson notaði það einnig sem fyrirmynd þegar hann byggði Íslending sem allir þekkja.   Ólíkt Gunnari þá þróar Sigurjón langskipið áfram eða lengra.  Hann tekur það besta úr langskipinu sem er lögunin og byggir svo yfir það og útbýr það jafnframt með allri þeirri nútíma tækni sem svona skipi getur nýst s.s.loftkælingu, hitakerfi, vél til að vinna vatn úr sjó svo eitthvað sé nefnt.  Skipið mun einnig verða útbúið þeim tækjum sem eru e.t.v. ekki alveg bráðnauðsynleg en auka hins vegar þægindin.  Úr þessu verður því sannkölluð lúxusskúta sem getur þess vegna siglt í kringum hnöttinn.
     Sigurjón er alveg með það á hreinu hvernig skipið eigi að líta út en til þess að vera nú með öll hlutföll rétt þá er hann með þrjá verkfræðinga í útreikningum fyrir sig og alla í sitthvoru landinu, á Íslandi, í Bretlandi og einn í Ameríku.  Smíðin er svo öll undir eftirliti hjá Lloyds í Þýskalandi.  Að sögn Sigurjóns þá var maður hér frá Lloyds fyrir stuttu og hann var gríðarlega hrifinn af skipinu.  Sagðist hann ætla að mæta með gesti við sjósetninguna og bað jafnframt um það að hann fengi myndir af skipinu til að setja í bækling Lloyds sem yrði dreift um allan heim.  Ástæðan; skipið er svo ólíkt öllu því sem Lloyds er með á sinni könnu sem eru t.d. stóru olíuskipin og stórir fraktarar.  
     Svo vikið sé að stærð skútunnar þá er hún 16,5 metrar á lengd eða nokkru styttri en Íslendingur og Gaukstaðaskipið sem bæði eru yfir 20 metrar á lengd.  Breiddin er 4,2 metrar og  hún mun verða um 15 þungatonn.  Seglið sem dregur það áfram er 94 fermetrar en það er þó ekki treyst á seglið eingöngu því í skútunni verða tvær vélar sem knýja tvær skrúfur og bógskrúfu, þannig að skipið ætti að láta mjög vel að stjórn í þröngum höfnum.  Káeturnar eru þrjár með svefnplássi fyrir sex og allar með baði og eru þær framan við matsalinn sem er miðskips.
     Skipsskrokkurinn er úr mahagonyviði þar sem að grindin, byrðingurinn og kjölurinn eru sett saman úr mörgum þunnum lögum af viðnum sem eru límd saman með epoxylími.  Byrðingurinn úr t.d. úr fimm lögum sem eru sett utan á hvert annað.  Fyrsta lagið skrúfað en svo koma fjögur lög sem eru límd á.  Þegar öll lögin eru komin á er byrðingurinn orðinn 3ja cm þykkur.  Kjölurinn er úr irocoviði sem verður svo klæddur stáli.  Þannig að skipið er allt úr tré en mastrið verður að öllum líkindum úr léttara efni eða koltrefjum og nær um 18 metra upp fyrir sjólínu.
     Einn megin kostur langskipanna var hversu grunnrist þau voru og skútan hans Sigurjóns verður engin undantekning frá því.  Það mun rista um 1 metra en skútur af sambærilegri stærð rista um  2,5 metra.  Þannig að þetta skip getur siglt upp skipaskurðina og stærstu árnar í Evrópu og athafnað sig þar með góðu móti.
Sigurjón leggur mikla áherslu á handbragðið við smíðina og segir að það verði að vera fullkomið.  Þessi smíði eigi í raun að vera eins og verið sé að smíða hljóðfæri en ekki skip.  „Ég vil hafa það þannig“, segir Sigurjón, „að það verði alveg sama hvar þú lítur eða skoðar skipið, hvaða blettur sem er á skipinu hvort sem það er í vélarúminu eða annars staðar það á allstaðar að vera fullkomið hand-bragð.“  Þannig að Sigurjón valdi músikölskustu mennina í Skipavík til að sinna smíðinni og það þurfti þó nokkrar söngprufur þar til að það var ljóst að Ásgeir Árnason og Magnús Jónsson yrðu þeir bestu í verkið. 
     Sigurjón gat nú ekki alveg svarað því hvenær smíðinni yrði lokið, upphaflega stefndi hann á október en getur vel verið að Sigurjón seinki smíðinni aðeins, jafnvel fram á næsta vor.
Endanlega markmiðið er svo að selja skútuna og að hún veki það mikla eftirtekt að smíða megi fleiri slíkar.  Sigurjón vildi nú ekki svara því hvaða verðmiði  yrði á henni.  En  aðspurður um verð á skútum, af sambærilegri stærð og með svipuðum útbúnaði, sagði hann að slíkar skútur gætu farið vel yfir 100 milljónirnar og það væri til fullt af þeim.  Þannig að maður skyldi ætla að fólk sem kaupir slíkar skútur úr plasti hljóti að renna hýru auga til rennilegs víkingaskips með sama útbúnaði og þar að auki úr viði!

                                                                                                                                                                               srb


Sigurjón í matsalnum þar sem lofthæðin er 2 metrar