Endurbætt sjóminjasafn opnar

Sjóminjasafnið á Hellissandi opnaði að nýju, eftir veturinn, á Sjómannadaginn með opnun á ljósmyndasýningu Karls Jeppesens, eru myndirnar úr bók Karls “Fornar hafnir, útvegur úr aldanna rás” Var sýningin sett upp í nýju móttökuhúsi Sjóminjasafnsins sem byggt var í vetur, þessi nýja viðbygging við Sjóminjasafnið eru um 70m2 og kemur til með að bæta aðkomu gesta að safninu, í viðbyggingunni verður einnig kaffisala þar sem boðið verður upp á Íslenskt bakkelsi. Mun safnið verða opið daglega frá 10-17 í sumar, tvær sýningar eru í gangi í safninu “Sjósókn undir Jökli” og “Náttúran við hafið”, sýningarnar hannaði Björn G. Björnsson. Sjóminjasafnið er staðsett í Sjómannagarðinum á Hellissandi og var komið upp af Sjómannadagsráði á Hellissandi og Rifi í gegnum árin. Þar er einnig endurgerð af síðustu þurrabúð sem búið var í á Hellissandi “Þorvaldarbúð 1942” var hún endurgerð í garðinum 1977-1978. Eldra safnahúsið er svo reist í kringum 1980, yfir elsta fiskibát sem varðveittur er á Íslandi, “Bliki 1826” Annar hluti safnsins, bátaskýlið, var svo reist 2008 og Blikinn færður þar yfir ásamt öðrum bát sem er í eigu safnsins “Ólafur Skagfjörð” er sá bátur nú í viðgerð og ekki til sýnis. Sjóminjasafnið er í dag sjálfseignarstofnun og rekin af sjálfboðaliðum, þeim Þóru Olsen, Erni Hjörleifssyni og Óskari Skúlasyni hafa þau lagt á sig ómælda vinnu við uppbyggingu safnsins síðustu 2 árin og hafa þau, að sögn Þóru, fyrir löngu týnt tölunni á öllum þeim vinnustundum sem þau hafa unnið við uppbygginguna á safninu. Svona uppbygging kostar að sjálfsögðu peninga, þrátt fyrir mikla sjálfboðavinnu, og að sögn Þóru hefur safnið notið mikillar góðvildar frá Snæfellsbæ og útgerðum í Snæfellsbæ og standa þær þétt við bakið á safninu, án þeirra hefði þessi uppbygging á safninu ekki orðið að veruleika. Vildi Þóra koma á framfæri, kæru þakklæti til allra þeirra sem styrktu þessa uppbyggingu á safninu, Snæfellsbæ, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi , útgerðir, fyrirtæki og einstaklingar.
þa