Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Ert það þú sem leitað er að?

Það er svosem engin nýlunda að efnt sé til kosninga hér á landi árlega ef því er að skipta, svo það eru eflaust engar fréttir að kosningar verði á þessu ári. Og þó. Sveitarstjórnarkosningar fóru síðast fram fyrir fjórum árum og nú er komið að kosningum að nýju á þeim vettvangi. Þær munu fara fram 26. maí n.k. Þegar eru farnar að berast fréttir af framboðsmálum í stærri sveitarfélögunum og líklegt að þessi mál fari að komast á hreyfingu í minni sveitarfélögunum á komandi vikum af einhverju marki. Talsverðar breytingar eru fyrirsjáanlegar hér þar sem heimildir Stykkishólms-Póstins herma að a.m.k. þrír efstu bæjarfulltrúar núverandi meirihluta gefi ekki kost á sér í vor en að vilji sé til þess að bjóða áfram fram undir merkjum H-lista.

Í desember s.l. köstuðu nokkrir á L-lista fram þeirri hugmynd hér, að bjóða ætti fram með persónukjöri.
Margt hefur verið rætt og ritað um áhuga fólks á kosningum eða það að taka þátt í störfum við stjórn sveitarfélags. Reynslusögur þeirra sem starfað hafa í þessu umhverfi eru ekki hvetjandi fyrir komandi kynslóðir! Þarf að breyta einhverju? Í raun er það þannig að fámennið gerir það að verkum að allir bera einhverja ábyrgð í litlum sveitarfélögum.

Íbúar eru hvattir til þess að útiloka ekki að leggja sitt af mörkum í þessum efnum og t.d. mæta með opnum huga á námskeið sem Stykkishólsmbær stendur fyrir í næstu viku – og sjá svo til! Það er amk. frír matur í boði 😀

am