Erum við svona?

Þjóðarpúls Bandaríkjamanna sem Pew Research Center í Bandaríkjunum gefur út á hverju ári þykir nú kannski ekki fréttnæmt í íslensku samhengi en niðurstöður hans eru þó áhugaverðar! Líkindin eru einhver við hið íslenska umhverfi og mega sjálfsagt skoðast hér eins og þar.

Kynslóðin sem í dag er á aldrinum 6-21 árs, Z-kynslóðin svonefnda er fædd eftir árið 2000 og alin upp við samfélagsmiðla og netheima, er t.d. sú fjölbreyttasta hvað varðar dreifingu kynþátta í Bandaríkjunum þar sem 52% eru skilgreindir sem hvítur kynþáttur en það hlutfall var 82% árið 1968. Í ljós kemur að 59% kvenna hafa upplifað kynferðislega áreitni en 27% karla. Sláandi tölur og stutt síðan tölur um áreitni, áföll og nauðganir komu fram hér á Íslandi, sem einnig voru sláandi. Notendur Facebook hafa eytt appinu úr símanum sínum og í aldurshópnum 18 – 29 ára er hlutfallið 44%. Stór meirihluti notenda samfélagsmiðilsins hefur breytt notendastillingum sínum og eldri aldurshópurinn frá 50 ára og eldri hefur í auknum mæli, eða 40-47% eftir aldri, tekið sér hlé frá notkun hans í einhverjar vikur eða lengur. Yngra fólk er líklegra til að aðskilja fréttaefni byggt á staðreyndum eða skoðanayfirlýsingum í fréttaefni. 59% unglinga hafa upplifað eitthvert form af einelti í netheimum. Uppnefningar, kjaftasögur, óviðeigandi myndasendingar, endalausar spurningar um hvar fólk sé statt, hvað það sé að gera, hverjum það er með af öðrum en foreldrum teljast til eineltis í þessum niðurstöðum. 90% unglinga segja að einelti í netheimum hafi áhrif á jafningja þeirra. Þeim þykir foreldrar sínir standa sig ágætlega í að takast á við það en hafa efasemdir um það hvernig kennarar, samfélagsmiðlafyrirtæki og stjórnmálafólk tekst á við einelti í netheimum. Bilið milli tekjulægstu og tekjuhæstu vex stöðugt þannig að þeir sem sitja efst í tekjustiganum eru með 8.7 sinnum hærri laun en þeir sem eru lægstir. Þegar kemur að trúmálum þá segjast 90% bandaríkjamanna trúa á æðri máttarvöld en aðeins 56% á Guð þann sem lýst er í Biblíunni. 59% bandaríkjamanna segja loftslagsbreytingar hafa einhver áhrif á nærumhverfi sitt sérstaklega þeir sem búa við ströndina. Tveir þriðju tvíta á samfélagsmiðlinum Twitter er póstað af svokölluðum Bots, sem eru nokkurskonar sjálvirkir aðgangar að miðlinum á meðan um einn þriðji er póstað af fólki. Þessi atriði eru nokkur af þeim átján sem talin eru eftirtektarverð á árinu 2018. Gott ef við getum ekki heimfært þetta upp á íslenskt samfélag?

Alla samantektina má lesa á eftirfarandi slóð: http://www.pewresearch.org/fact-tank/2018/12/13/18-striking-findings-from-2018/

am/frettir@snaefellingar.is