Eyja inn í Hólm

Löngum hefur það verið rætt í tengslum við umferðaröryggi að bæta þyrfti úr aðstöðu á gatnamótum Stykkishólmsvegar og Búðarnesvegar. Í Skipulags- og byggingarnefnd Stykkishólmsbæjar var fundað á dögunum og voru þessi gatnamót þar til umfjöllunar. Vegagerðin hefur hug á að fara í aðgerðir, enda Stykkishólmsvegur á hendi hennar. Ætlunin er að koma fyrir miðeyju á gangbrautinni og vonast er til þess að náist að hægja á umferðinni með þeim aðgerðum. Að mati Skipulags- og byggingarnefndar eru þessar framkvæmdir ekki taldar fullnægjandi til að draga úr umferðarhraða og tryggja öryggi vegfarenda en þar sem brýn nauðsyn er á úrbótum þá samþykkir nefndin þessa framkvæmd sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

am/frettir@snaefellingar.is