Fagnað á heimsmælikvarða

Það var ekki einungis sigur Íslands á Króötum í undankeppni HM sem vakti heimsathygli síðasta sunnudag. Einlæg og óyfirveguð viðbrögð Hólmarans Jóns Þórs Eyþórssonar við marki Harðar Björgvins Magnússonar á lokamínútu leiksins fór um netheima og smitaði út frá sér innilegri gleði sem sannarlega fangaði upplifun Íslendinga af sigrinum.

Kolbrún Ösp, eiginkona hans, sem tók upp myndbandið og deildi á Facebook síðu sinni, segir að vinsældir myndbandsins hafi komið á óvart. Í sigurvímu sinni deildi KSÍ myndbandinu og í kjölfarið birtist það á helstu netmiðlum landsins. Útvarpsstöð í Þýskalandi spilaði myndbandið fyrir hlustendur sína og segir Kolbrún að fjöldi fólks víða um heim hafi sett sig í samband við sig. Áhorf á myndbandið nálgast óðum 300.000.

Undir myndbandinu á síðu KSÍ má sjá færslur víðsvegar að úr heiminum þar sem fólk annaðhvort dásamar land og þjóð, landsliðið eða Jón Þór sjálfan.

Íslenska landsliðið er nú jafnt því Króatíska að stigum í riðlinum en er í 2. sæti vegna lakari markatölu.