Fann rostungstönn í Landey

Guðmundur Arnar Ásmundsson fann heldur betur sjaldgæfan hlut í gönguferð sinni um Landey fyrir skömmu. Í vík gegnt Skipavík fann hann rostungstönn. Rostungar eiga ekki fasta búsetu við Íslandsstrendur í dag en flökkudýr sjást þó endrum og sinnum.

Tönninni var komið í hendur Háskólaseturs og þaðan til Minjastofnunar sem hafði samband við Náttúruminjastofnun. Þó ekki sé búið að taka nema bráðabirgðasýni telja menn að tönnin gæti verið um 3.000 ára.

Dr. Hilmar Malmquist hjá Náttúruminjastofnun segir mælingar sem hafa verið gerðar á leifum rostunga á Snæfellsnesi hafa leitt í ljós að aldur þeirra sé á bilinu 1.000-3.000 ára.

Hann telur líklegast að tönnin hafi komið upp við dýpkunarframkvæmdir við Skipavíkurhöfn, en nokkur dæmi eru um að leifar rostunga finnist við þannig framkvæmdir. Breidd rótarinnar gefur til kynna að tönnin hafi verið um 50-60 cm á lengd.

Í ljósi sögunnar þykir athyglisvert að rannsaka svona fundi vel. Án þess að nokkuð sé fullyrt hérna má geta þess að til eru kenningar þess efnis að land hafi byggst vegna rostungsauðlindarinnar. Afurðir rostungs þóttu fyrr á öldum hið mesta þarfaþing, m.a. til skipagerðar. Til eru örnefni á Breiðafirði bera þess merki að tengjast rostungum, sem dæmi má nefna Hvallátur. Það hefur ekki verið sannað með óyggjandi hætti að rostungar hafi kæpt í Hvallátrum en einmitt þess vegna er mikilvægt að aldursgreina leifarnar.

Hilmar segir í stuttu spjalli við Stykkishólms-Póstinn að það sé virðingavert hjá Guðmundi að gera þeim viðvart um fundinn, alltof oft komi það fyrir að fólk haldi slíkum fundum leyndum.

Guðmundur var ánægður með gripinn og gaf Stykkishólms-Póstinum ljóslifandi lýsingu af fundinum, með öllum staðarheitum og örnefnum.