Fjöldi ferðamanna í Stykkishólmi

Frá því að Anok keypti útgáfu Stykkishólms-Póstsins árið 2005 hafa verið birtar tölur um gesti hér í Stykkishólmi. Gögnin ná aftur til ársins 2006 en það verður að viðurkennast að stundum hefur reynst erfitt að fá þessar tölur. Tölur eru enn að berast okkur fyrir þetta ár en eftirfarandi tölur gefa þó nokkra mynd a.m.k. af fjölda í ákveðnum þáttum ferðaþjónustu.

Þannig sést að sundlaugargestum hefur fækkað á þessu tímabili, t.d. voru sundlaugargestir sumarmánaðanna 2008 rúmlega 22.200 talsins. Í ár voru gestir á sama tíma einungis 14.800 talsins. Hápunkturinn  á tjaldsvæðinu á sumarmánuðum í gistinóttum talið var árin 2016-2017 um 16.000 en í ár voru þær 9.855.

Samdráttur er einnig í flutningum með Baldri og meira í farþegaflutningunum en í flutningi bifreiða yfir fjörðinn. Fækkun farþega með Særúnu er einnig á milli ára. Skv. mælaborði ferðaþjónustunnar þá hefur gistirými fjölgað gríðarlega frá árinu 2010 en afturkippur kemur hinsvegar í framboðið árið 2018, þegar ný lög um heimagistingar taka gildi. T.a.m. eykst gistirými 2016 um 40% á Vesturlandi og Vestfjörðum. Gistinætur á hótelum eru taldar þar sem hótel eru opin allt árið og þrátt fyrir að þeim hafi fjölgað á Vesturlandi þá eru tölurnar ómarkvissar þar sem bæði Vesturland og Vestfirðir eru taldir saman.

Hvað er hægt að lesa úr þessu? Segir þetta okkur það að aukning ferðamanna s.l. áratug hafi alls ekki skilað sér í Stykkishólm?

Það hefur sýnileg aukning orðið í umferð um Stykkishólmsveg eins og umferðartölur Vegagerðarinnar sýna fram á:

Sumardagsumferð um Stykkishólmsveg árið 2017 var 1500 bílar og vetrardagsumferð um 530 bílar en árið 2015: 1352 sumardagsumferð og 496 í vetrardagsumferð. Árið 2009 var 1072 í sumardagsumferð og 395 í vetrardagsumferð.

Það má spekúlera vel og lengi yfir þessum tölum, en ráðamenn og forystufólk í ferðaþjónustu hlýtur að spyrja sig hvað veldur þessu og sækja fram, eða hvað?

am/frettir@snaefellingar.is