Fjölgun herbergja

Verið er að skoða að hefja framkvæmdir við fjölgun herbergja á Fosshótel Stykkishólmi í vetur. Áform eru um að bæta við 12 herbergjum ofan á miðbygginguna þar sem inngangurinn er inn í hótelið og þar af ein svíta. Hótelið er fullt á sumrin og á þeim forsendum full ástæða til þess að fjölga herbergjum. Staðan í bókunum framundan er einnig mjög góð, að sögn Maríu Ólafsdóttur hótelstjóra, en um nokkurra ára skeið hefur hótelið einungis lokað yfir jól og áramót og má því segja að það sér opið allan ársins hring, utan þessara fáu daga.

Hótelið var stækkað síðast árið 2005 þegar byggt var við það viðbygging næst Grunnskólanum. Ráðist var í endurbætur innandyra árið 2006 þegar anddyri og salur var endurbætt. Árið 2015 var einnig farið í endurbætur á herbergjum. Í dag eru 79 herbergi á hótelinu.

Árið 2014 var sótt um stækkun á hótelinu sem nam 57 herbergjum (um 114 rúm) svo ljóst er að talsverðar breytingar hafa orðið á áformum um fjölgun herbergja frá því þá. Við tókum saman árið 2014 grein um mögulega fjölgun gistirýma í Stykkishólmi. Niðustaða þeirrar samantektar var að fjölgað gæti um 294 rúm sem þýddi tæplega 90% aukningu á rúmum. Inni í þessum tölum voru 114 rúma stækkun á Hótel Stykkishólmi sem þá var búið að sækja um, 90 við hótel á Aðalgötu (sem ekki reis), 50 á Hótel Fransiskus, 40 í smáhýsum við Vatnsás sem urðu 28 rúm. Hvað gerist á Aðalgötu 17 er óvíst en skv. þessu hefur talan breyst í 90 rúm miðað við nýjustu upplýsingar. Gögn mælaborðs ferðaþjónustunnar sýna að gríðarleg fjölgun gistingarsala (allar tegundir gistinga) hefur orðið sérstaklega eftir seinnihluta árs 2016. Rauntölur um fjölda rúma í Stykkishólmi liggja því ekki fyrir að svo stöddu.

am/frettir@snaefellingar.is