Fjölgun íbúða í deiliskipulagi Víkurhverfis

Gulir fletir eru á gildandi skipulagi. Rauðir tilheyra tillögum

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur samþykkt tillögu um breytingu deiliskipulags á Víkurhverfi sem miðar að því að fjölga lóðum fyrir rað- og parhús. Markmið breytingarinnar er að auka framboð minni íbúðarhúsa í bænum en erfitt hefur þótt að fá húsnæði, sér í lagi fyrir ungar fjölskyldur sem eru að koma undir sig fótunum. Mikil fjölgun hefur orðið í bænum af ungu fjölskyldufólki.

Staðan í dag er sú að einungis eru einbýlishúsalóðir í Stykkishólmi lausar til umsókna.

Samþykkt breyting nær til gatnanna Vatnavík, Sundvík og Móvík. Í gildandi skipulagi er gert ráð fyrir 17 íbúðum á því svæði en með breytingunni er ráðgert að íbúðirnar verði að lágmarki 23 og að hámarki 29.

Breytingin er uppdráttur sem skipulags- og byggingarnefnd á eftir að taka fyrir en verður auglýst eftir það.

Aðrar breytingar á skipulaginu snúa að breytingum á sumum lóða hverfisins til að tryggja gangandi umferð meðfram ströndinni.