Flensan í háloftum

Nú er tími farfuglanna að snúa aftur heim eftir vetrardvöl í heitari löndum. Í vikunni bárust þær fréttir að sjálf lóan væri komin og er það mikið fagnaðarefni enda vorboðinn ljúfi þar á ferð.

En það er ekki tekið út með sældinni að vera víðförull fugl þessa dagana því leiðinda flensa er að ganga þeirra á milli, rétt eins og hjá okkur mannfólkinu.

Flensan getur dregið fuglana til dauða en hún er ekki talin hættuleg mönnum.

Matvælastofnun biður fólk um að láta vita gangi það fram á fuglshræ sem óvíst er að hafi drepist af slysförum. Hægt er að gera það á heimasíðu stofnunarinnar.

Þar er einnig að finna leiðbeiningar fyrir fuglaeigendur um viðbúnað vegna fuglaflensu.