Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Flugeldar og hundaskítur

Það kemur ýmislegt í ljós þegar snjórinn hverfur, sól hækkar á lofti og gróður fer að taka við sér. Ýmislegt sem fengið hefur að liggja óáreitt í vetrarmyrkrinu. Það kemur alltaf betur og betur í ljós hversu mikið sprengt var um áramótin, neyðarblys og flugeldar liggja hér og þar til að minna okkur á hversu langt við erum komin inn í nýtt ár.
Þess á milli er hundaskítur (vonandi er þetta eftir hunda). Flenniflykki sumstaðar sem fara illa undir skósóla.

Endalaust stærum við okkur af því að hafa hreinan og umhverfisvænan bæ sem vert er að heimsækja. Það er allt gott að blessað, göfugt markmið og vissulega satt að mörgu leiti en betur má ef duga skal. Áður en langt um líður verður hér allt smekkfullt af ferðamönnum að smella myndum til að sína vinum sínum í útlandinu. Þá er leiðinlegt af hafa pulsubréf og mjólkurfernur í blómabeðunum. Það er búið að banna ferðamönnum að kúka í bæjarlandinu, leyfum hundunum okkar að vera góðar fyrirmyndir um hægðir og hreinsum upp eftir þá.