Fótboltinn rúllar af stað

Tveim leikjum er lokið hjá sameinuðu liði Snæfells og Ungmennafélagi Dalamanna og norður Breiðfirðinga í 4. deild karla, A-riðli.

Fyrri leikurinn var heimaleikur gegn sterku liði Kórdrengja. Þegar dómari flautaði til leiksloka var staðan 1 – 11 fyrir Kórdrengjum og öruggur sigur þeirra í höfn. Mark Snæfells/UDN kom úr vítaspyrnu á 90. mínútu. Deividas Leskys tók spyrnuna en fullseint var orðið að reyna að vinna leikinn á þeim tímapunkti.

Annar leikurinn var útileikur gegn Ísbirninum í Kópavogi þriðjudaginn 30. maí. Öllu ásættanlegri úrslit urðu í þeim leik en betur má ef duga skal. Ísbjörninn vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu.

Snæfell/UDN er í neðsta sæti riðilsins án stiga eftir tvær umferðir. Kórdrengir og Hamar verma toppsætið með 6 stig hvor. Kórdrengirnir eru þó með talsvert betri markatölu.

Næsti leikur er heimaleikur á Stykkishólmsvelli gegn Kríu þriðjudaginn 6. júní kl. 20.