Fótboltaæfingar alla helgina

Nýliðna helgi voru haldnar fótboltabúðir í Stykkishólmi sem UMF Snæfells stóð að. Félagið fékk til sín Heiðar Birni Torleifsson til að leiða æfingabúðirnar en hann þjálfar undir merkjum Coerver Coaching aðferðarfræðarinnar. Þessi aðferð byggir á hugmynda- og æfingaáætlun sem þjálfar upp færni og hentar öllum aldurshópum en sérstaklega aldrinum 6-16 ára á öllum getustigum, og einnig foreldrum, þjálfurum og kennurum. Hugmyndafræðin einblínir á að þróa færni einstaklingsins og leikæfingar í smáum hópum. 1200 iðkendur í fótbolta á Íslandi komu á námskeið á síðasta ári hjá Coerver Coaching sem var stofnað 1984 af þeim Alfred Galustian og Chelsea goðsögninni Charlie Cooke, og er æfingaáætlunin undir áhrifum hins fræga hollenska þjálfara Wiel Coerver. Góð þátttaka var um helgina hjá krökkum í Snæfelli en meðfylgjandi mynd var tekin í öðrum hópnum sem var við æfingar á sunnudeginum.

am/frettir@snaefellingar.is