Fótboltasamstarf

Snæfell og Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) hafa gert á milli sín samstarfssamning um að tefla saman meistaraflokksliði karla í knattspyrnu.

Keppt verður í Lengjubikarnum og í 4. deild.

Fyrsti leikur liðsins verður í Lengjubikarnum á móti Mídasi. Sá leikur fer fram í Akraneshöllinni, föstudaginn 10. mars.

Æft verður á höfuðborgarsvæðinu, á Snæfellsnesi og í Dölum.

Svana Hrönn Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri UDN, segir að þetta fyrirkomulag henti vel til að rífa upp starfið. Yngri flokkar sem hafi gaman að því að spila á mótum geta nú haft það að markmiði að komast í meistaraflokkinn sem vantað hefur í Dölunum.

Það má því segja að samstarfið sé í raun fjárfesting til framtíðar hjá báðum félögum.

Fyrst um sinn mun liðið spila í búningum merktum Snæfelli.