Fótboltasumarið fer að byrja

Snæfell/UDN, sameiginlegt lið Snæfells og Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga, spilar sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í A-riðli 4. deildar þriðjudaginn 23. maí nk. Þar mun liðið mæta sterku liði Kórdrengja.

Önnur lið í riðlinum eru GG, Hamar, Hvíti riddarinn, Hörður Í. og Kría.

Lið Snæfells/UDN er skipað leikmönnum frá Stykkishólmi, Búðardal, Reykjavík og Akranesi en allir leikmenn hafa einhverja tengingu við Hólminn eða Dalina. Páll Margeir, þjálfari, kveðst vera spenntur fyrir sumrinu. Nú reynir á aðdáendur að mæta á leiki og styðja liðið.

Líkur eru á að Snæfell/UDN fái verulegan liðsstyrk á næstu misserum. Nú er verið að vinna að því að fá skoska markmanninn James Baird til landsins. Baird er 33 ára og hefur m.a. spilað leiki með skoska unglingalandsliðinu. Hann er þjálfaramenntaður og mun koma til með að sjá um þjálfun leikmanna liðsins í Reykjavík. Ekki er ljóst hvenær von er á honum til landsins en útlit er fyrir að hann verði mikill liðsstyrkur.

Sem fyrr segir verður fyrsti leikur liðsins á Stykkishólmsvelli þriðjudaginn 23. maí og hefst hann kl. 20:00.