Framtíðarsýn um ferðamál

Eins og við höfum sagt frá á þessum vettvangi hefur verið hrint af stað vinnu við áfangastaðaáætlun á Vesturlandi undir nafninu DMP. Verkefnið snýst um stöðugreiningu, stefnumótun og aðgerðaáætlun fyrir þróun ferðamála. Áætlun verður tilbúin í maí 2018. Það er Ferðamálastofa sem stendur fyrir þessu verkefni ásamt Markaðsstofunum á Íslandi.
Í nóvember voru haldnir opnir fundir og var mæting á hvern fund um 20-25 manns. Þátttakendum var skipt í hópa og unnu saman að helstu áherslum varðandi framtíðarsýn ferðaþjónustuannar og þróun hennar næstu þrjú árin. Þetta voru vinnusamir og góðir fundir þar sem margt áhugavert og gagnlegt kom fram. Fyrsta tilfinning varðandi niðurstöður þessara funda er að fólk er almennt mjög ánægt með þá framþróun sem hefur orðið síðastliðin ár í ferðaþjónustu á Vesturlandi. Mikill samhljómur var á fundunum þar sem fundarmenn kölluðu eftir samtali, skilning og stýringu sem gæti skapað sátt um ferðaþjónustuna í landinu. Rætt var um mikilvægi þess að öðlast meiri þekkingu og skilning á eðli og umfangi ferðaþjónustunnar til að hægt væri að mæta þörfum greinarinnar og vinna samhent og í sátt að því að byggja upp gæða ferðaþjónustu á Íslandi.
Síðast en ekki síst var svo samhljómur um að allir sem að þessari atvinnugrein kæmu þyrftu að sýna ábyrgð í verki. Það væri ekki hægt að byggja upp heilstæða atvinnugrein og stuðla að gæðum hennar ef utanumhald og umgjörð væri ekki í lagi. Stjórnvöld yrðu að setja umgjörð og reglur sem styddu við gæði og fagmennsku, og fylgja því eftir að allir störfuðu innan rammans svo ekki skapaðist ójafnvægi á markaðnum. Atvinnugreinin þyrfti líka að hafa metnað til að veita gæðaþjónustu og gera það vel. Samfélagið þyrfti að gera sér grein fyrir ávinningi sínum af ferðaþjónustu og styðja við greinina með velvild, tillitssemi og framboði á vörum og stoðþjónustu sem efldi þessa atvinnugrein. Allir þyrftu svo að leggjast á eitt um að tala greinina upp en ekki niður.
Áfram verður unnið að þessari gagnaöflun og greiningu varðandi áherslur í stefnumótun um framþróun ferðamála á Vesturlandi. En fyrirhugaðir eru opnir fundir á öllum svæðum í janúar þar sem unnið verður að markmiðasetningu til að undirbyggja aðgerðaráætlun fyrir framþróun ferðamála á Vesturlandi næstu þrjú ár. Ítarlegri skýrsla af fundunum er aðgengileg hér.

am