Fréttir af fótboltanum

 

Fyrri umferð Íslandsmóts í innanhúsfótbolta fer fram 17. nóvember í Íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi. Snæfell er í riðli með Leikni/KB, Haukum og Erninum. Fyrsti leikur umferðarinnar hefst kl. 13 og þá eigast við Snæfell og Leiknir/KB. Mótinu lýkur um kl. 17 sama dag.

Deildin hefur nú þegar bætt við sig tveimur góðum leikmönnum sem komu í lok september hingað vestur. Annar er framherji, 29 ára frá Slóvakíu sem spilaði í 2.deild í Tékklandi og síðan varnarmaður 26 ára frá Póllandi. Í janúar bætist enn við liðið þegar tveir öflugir leikmenn frá Bosníu, 26 ára gamall miðjumaður sem Senid þjálfari hefur unnið mikið með og 23ja ára framherji frá Spáni, sem heimsótt hefur Hólminn tvisvar en bróðir hans lék í nokkur á í Pepsideildinni og bar hann starfi Snæfells og Stykkishólmi góða sögu. Verið er að skoða að fá hingað 24ra ára varnarmann sem leikið hefur í efstu deild í heimalandi sínu. Hann er að ljúka háskólanámi í íþróttafræðum í Portúgal og hefur réttindi til að þjálfa körfubolta, knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Ljóst að það yrði fengur að fá hann hingað vestur.

Deildin mun áfram ganga í hús og selja afurðir í samstarfi við Þórsnes en deildin á mikið undir í því að fólk versli af þeim, líkt og aðrar deildir Snæfells. Knattspyrnuliðið stefnir á að komast aftur í 8 liða úrslit í Íslandsmótinu í Futsal sem hefst á laugardaginn og hvetja þeir fólk að koma og styðja þá. Áfram Snæfell!

am/frettir@snaefellingar.is