Fundur bæjarráðs um starfsemi Háls- og bakdeildar í Stykkishólmi

Bæjarráðsfundur var haldinn 17. ágúst s.l. og til stóð að halda annan fund þann 18. sem var frestað til dagsins í dag, 22. ágúst.

Umfjöllunarefni fundarins var starfsemi Sjúkrahúss HVE í Stykkishólmi. Til fundarins mættu forstjóri HVE Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, Þórir Bergmundsson framkvæmdastjóri lækninga HVE, Ásgeir Ásgeirsson framkvæmdastjóri rekstrar HVE og Rósa Marinósdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar HVE.

Eftirfarandi bókanir voru gerðar vegna málsins:

Bókun bæjarráðs vegna fundar með stjórnendum HVE

Starfsemi Sjúkrahúss HVE í Stykkishólmi. Til fundarins mætir forstjóri HVE Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir og stjórnendur deilda sjúkrahússins
Í upphafi fundar bæjarráðs vísaði bæjarstjóri til fyrri viðræðna við forsvarsmenn Sjúkrahúss HVE, við fulltrúa ráðuneytis og þingmenn vegna reksturs sjúkrahússins og þá sérstaklega háls og bakdeildar sem og viðræðna um uppbyggingu hjúkrunardeildar í samstarfi við Dvalarheimili aldraðra.
Fulltrúar í bæjarráði lögðu ríka áherslu á að háls og bakdeildin verði efld og tryggt að læknar verði ráðnir bæði að sjúkrahúsinu og þar með að bakdeildinni sem og heilsugæslulæknar í fastar stöður sem komi í stað þess kerfis að ráða lækna tímabundið sem verktaka. Bæjarráð telur mjög miður að ekki hafi náðst samkomulag við Jósep Blöndal um starfslok hans.
Bæjarráð fagnar yfirlýsingu forstjóra HVE um að bakdeildin verði efld og það tryggt að sú einstaka uppbygging á þjónustu deildarinnar sem hefur þróast s.l. 25 ár undir stjórn Jósefs Blöndal og þeirra öflugu starfsmanna sem við deildina starfa verði tryggð áfram. Í yfirlýsingu frá forstjóra til starfsmanna kemur fram skýr vilji framkvæmdastjórnar um að unnið verði áfram að framgangi og rekstri háls- og bakdeildarinnar og hún efld eins og staðfest hefur verið í starfsáætlun stofnunarinnar.
Í yfirlýsingunni kom einnig fram að Hafdísi Bjarnadóttur og Hrefnu Frímannsdóttur hafi verið falið það mikilvæga verkefni að vinna saman að skipulagi deildarinnar til framtíðar og framkvæmdastjórn muni standa þétt við bak þeirra í þessum störfum. Bæjarráð lýsir stuðningi við þessi áform og leggur ríka áherslu á að staðið verði við bakið á starfsfólki sjúkrahússins og tryggt að sérfræðingar á sviði læknisfræði verði ráðnir til verka í stað Jósefs Blöndal sem hefur mótað og byggt upp einstaka starfsemi með háls og bakdeildinni.
Bæjarráð vill í tilefni starfsloka Jóseps Blöndal, sem lætur af störfum vegna aldursreglna ríkisstarfsmanna, þakka honum fyrir einstök störf í þágu heilbrigðisþjónustunnar og óskar honum allra heilla og væntir þess að þekking hans nýtist áfram.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að koma á fundi með bæjarráði og fulltrúum þeirra starfsmanna sjúkrahússins sem fara með daglega stjórn háls og bakdeildar samkvæmt ákvörðun sem forstjóri kynnti bæjarráði og fram kemur í fréttatilkynningu sem send var út eftir fund með starfsfólki sjúkrahússins.
Bæjarráð væntir góðs samstarfs við forstjóra og stjórnendur HVE svo leita megi allra leiða til þess að tryggja sem best þjónustu Sjúkrahúss HVE í Stykkishólmi og þá ekki síst háls og bakdeildar sem svo margir setja traust sitt á að geti áfram þjónað þeim sem leita til læknis og sjúkraþjálfara deildarinnar.
Stykkishólmi, 22.ágúst 2017
Katrín Gísladóttir
Sturla Böðvarsson

Bókun Lárusar Hannessonar vegna fundar með stjórnendum HVE

Sú staða sem komin er upp í Háls – og bakdeild Sjúkrahússins í Stykkishólmi er afleit. Það er miður að Jósepi Blöndal yfirlækni deildarinnar og helsta hugmyndafræðingi til 25 ára hafi ekki verið boðinn ásættanlegur samningur með þeim afleiðingum að Jósep hefur látið af störfum. Það er ljóst að stjórn HVE hafði engan áhuga á að kanna hvort hægt væri að miðla málum og ósk undirritaðs um að bæjarráðsfulltrúar fengju tækifæri á að kanna hvort möguleiki væri á að ná sáttum var strax hafnað. Það sýnir að enginn vilji var hjá stjórn HVE að ná annarri niðurstöðu.
Fyrir fund bæjarráðs sem haldinn var þann 15. Júní síðastliðinn kom undirritaður með eftirfarandi tillögu:
Tillaga til bæjarráðs
Geri það að tillögu minni að bæjarstjórn Stykkishólms ásamt atvinnumálanefnd óski eftir fundi með forsvarsfólki Háls- og bakdeildar . Á fundinn verði boðaðir lykilstarfsmenn deildarinnar auk fulltrúa frá stjórn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
Greinargerð: Mikil óvissa er með þessa mikilvægu deild sem er einstök á landsvísu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Starfsfólk deildarinnar býr yfir mikilli og dýrmætri reynslu. Jósep Blöndal yfirlæknir verður að láta af störfum innan nokkurra mánaða sökum aldurs. Það er því nauðsynlegt að fara yfir stöðuna og meta hvernig deildin stendur og ekki síst kanna hvort bæjaryfirvöld geti lagst á árar með deildinni henni til eflingar og öryggis.
Lárus Ástmar Hannesson
Tillagan var ekki afgreidd heldur henni frestað fram yfir fund með forstöðumanni HVE. Það er ljóst að rétt hefði verið að taka þessa tillögu til afgreiðslu og samþykkja á þessum tíma og setja vinnu í gang á vegum bæjarins og gera öfluga tilraun til að sporna við að þessi staða kæmi upp. Tillagan hefur ekki enn verið tekin til afgreiðslu.
Það er afar nöturlegt að Háls- og bakdeildin skuli vera í þessari stöðu nokkrum vikum fyrir 25 ára afmæli deildarinnar.
Yfirlýsingar stjórnar HVE um að efla skuli stofnunina hljóma léttvægar í mín eyru og á stjórnin þann kost einan að láta verkin tala.
Háls- og bakdeildin hefur notið faglegs trausts og verið Stykkishólmsbæ og mörgum skjólstæðingum hennar afar mikilvæg. Mjög hæfir starfsmenn starfa við deildina og mikilvægt að þeir fái tækifæri og traust til að halda áfram því faglega og góða starfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum 25 árum.
Lárus Ástmar Hannesson