Gagnlegt

Við sögðum frá verkefni bandaríska arkitektsins Mark Melnichuk í síðasta tölublaði sem fékk á dögunum verðlaun fyrir hugmynd sína um gagnaver í Skipavík. Melnichuk svaraði fyrirspurn okkar um hugmyndir sínar en eins og fyrr sagði hreifst hann af Íslandi og ákvað að hanna gagnaver við hlið Skipavíkur. Hann kom hingað fyrst sumarið 2015 og leigði ásamt konu sinni gistibíl og ferðaðist um landið. Hann kveðst hafa hrifist af byggingarefnum í húsbyggingnum í Stykkishólmi og nefnir þar sérstaklega Norska húsið. Áhugi hans á að hanna gagnaver kviknaði þar sem almennt ríkir sú nálgun við byggingar af því tagi að þær eru meira í ætt við vöruhús eða skemmur sem eru kannski ekki augnayndi. Eftir að hann kynnti sér Stykkishólm, sögu hans og menningu ákvað hann að teikna fyrir lóðina við hlið Skipavíkur, ekki síst út frá því hversu staðsetningin var tilkomumikil í landslaginu.

Það er ekki síður athyglisvert að velta þessu verkefni fyrir sér í ljósi nýlegra frétta um byggingu og framgang stærsta gagnavers landsins sem nú rís á Blönduósi og var í fréttum í vikunni. Á Blönduósi er það fyrirtækið Etix Everywhere Borealis sem stendur að framkvæmdunum og er þegar hafist handa við stækkun. Fyrirtækið rekur einnig gagnaver í Reykjanesbæ. Í vikunni var undirritaður rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og fyrirtækisins um afhendingu 25 MW til gagnaversins á Blönduósi. Það væri e.t.v. athugunarefni hvernig orku- og vatnsafhendingarmálum er háttað hér á Snæfellsnesi fyrir iðnað af þessu tagi?

am/frettir@snaefellingar.is