Gatnagerð

Núna standa yfir og eru reyndar búnar að vera með hléum í vetur, framkvæmdir við Fossabrekku í Ólafsvík. Er þetta annar áfangi sem byrjað var á árið 2008, í hruninu var svo allt sett á bið. Eina einbýlishúsið sem stendur við Fossabrekku seldist fyrr á árinu og var þá ákveðið að halda áfram þar sem frá var horfið, er gatan núna langt komin með skólplögnum og því sem þeim tilheyrir og því allt tilbúið ef áhugi er á að byggja fleiri hús við götuna.

Að sögn Svans Tómassonar hjá TS vélaleigu eru þeir búnir að vera heppnir með veður í svona framkvæmd því oft getur verið snjóþungt í Ólafsvík, svo hefur þó ekki verið þennan veturinn, hann hefur verið óvenju snjóléttur og því meiri vinnufriður. Til stendur að malbika götuna í sumar.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli