Gistirýmum fjölgar í Stykkishólmi

Við Aðalgötuna í Stykkishólmi er að fjölga gistirýmum. Nýlega opnuðu hjónin Gestur Hólm Kristinsson og Kristín Benediktsdóttir glæsilegt gistiheimili á horni Frúarstígs og Aðalgötu í húsnæði þar sem síðast var rekið veitingahúsið Plássið. Gistiheimilið ber nafnið Akkeri. Miklar lagfæringar hafa farið fram á húsnæðinu og utandyra, svo mikil prýði er að. Herbergin eru sex og eru öll með sér baðherbergi. Það kemur á óvart hversu skemmtilegt útsýni er úr þeim öllum. Opið verður allt árið.

Heimagistingin Stykkishólmur Appartment hefur einnig opnað hjá hjónunum Kolbrúnu Ösp Guðrúnardóttur og Jóni Þóri Eyþórssyni á neðri hæð Aðalgötu 13 þar sem síðast var rekin verslunin Í dagsins önn. Þar er rými fyrir 6-8 gesti.

Í gamla sýslumannshúsinu er skv. heimildum Stykkishólms-Póstsins áformað að verði gistiheimili og ofar í bænum við Aðalgötuna eða við tjaldsvæðið hafa risið fjögur smáhýsi, sjö gistirými þar sem allt að fjórir gestir geta gist í einu. Reiknað er með að þessi gisting sem opin verður allt árið opni fimm gistirými um næstu mánaðamót.

am/frettir@snaefellingar.is