Gjaldtaka við Helgafell

Jóhanna Kristín Hjartardóttir tilkynnti á Facebook síðunni Bakland ferðaþjónustunnar að áformað sé að landeigendur á Helgafelli innheimti 400 kr. gjald fyrir skoðun á staðnum. Er það gert til þess að bæta aðgengi staðarins en ákvörðunin var tekin í ljósi þess að landeigendur fengu synjun á styrkveitingu til að klára göngustíga o.fl. sem byrjað var á árið 2014. „Svæðið hefur mikið látið á sjá vegna ágangs í gegnum tíðina og ljóst er að starfsmaður þarf að vera til staðar á svæðinu til að stýra umferðinni og veita upplýsingar” segir ennfremur í færslunni.

Óhætt er að segja að gríðarleg umræða hafi farið af stað á samfélagsmiðlum eftir birtingu færslunnar. Annars vegar hrósar fólk ákvörðuninni og sýnir henni fullan skilning en aðrir mótmæla harðlega. T.a.m. segist Þór Saari, fyrrv. Alþingismaður, aldrei ætla að borga til þess að ganga um landið sitt. Sumir ætla sér að sniðganga Helgafell og einn aðili segist ætla að taka staðinn út úr væntanlegri bók sem hann er að skrifa um áhugaverða staði fyrir ferðamenn.

Edward H. Huijbens, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála, spyr á Facebook síðu sinni hvort slík gjaldtaka gæti virkað í öðrum greinum, gæti veitingastaður t.d. tekið við greiðslu fyrir mat sem yrði reiddur fram ári seinna? Þar á hann við það að nota eigi féð í uppbyggingu sem ekki er komin og telur hann nærtækara að fá lán til framkvæmda og nýta gjaldtökuna til þess að greiða niður lánið. Þó er þarna salernisaðstaða opin öllum sem fólkið á staðnum hefur umsjón með. Sjálf hafa þau borið efni í göngustíga.

Fleiri sýna ákvörðuninni mikinn skilning, sérstaklega aðrir landeigendur, og má lesa út úr athugasemdum þeirra að svona fari þegar stjórnvöld bregðast seint og illa við miklum ágangi ferðamanna.

Umferðin að Helgafelli er nær stanslaus frá morgni til kvölds og jafnvel á nóttunni yfir sumartímann enda hér um að ræða sögufrægan stað í Íslandssögunni.