Miðvikudagur , 19. desember 2018

Göngu- og reiðleiðir og sjómannvirki

Í síðsustu viku hélt skipulags- og byggingarnefnd Stykkishólmsbæjar sinn 163. fund og skv. fundargerð voru 19 dagskrárliðir sem lágu fyrir fundinum sem stóð í 3 klukkustundir.
Rætt var um gerð göngustíga og sótt um framkvæmdaleyfi stígs við enda Búðanesvegar og upp að Hamraendum suðvestan þjóðvegar. Nefndin tók jákvætt í það erindi með fyrirvara um samþykki viðeigandi stofnana hún leggur einnig til að stígurinn fylgi gömlu þjóðleiðinni eins og sjá má á deiliskipulagi og gömul kennileiti fái aftur hlutverk og verði merkt. Þessu tengist annar dagskrárliður um skylt efni. Hesteigendafélag Stykkishólms leggur fram fyrirspurn og sækir um framkvæmdaleyfi fyrir lagninu reið- og gönguleiðar. Tillögu félagsins er hafnað og lagt til, eins og í afgreiðslu um göngustíg, að göngu- og reiðleið verði á gömlu þjóðleiðinni frá Hamraendum í Vogsbotn.
Kynntar eru framkvæmdir siglingasviðs Vegagerðarinnar um lengingu ferjubryggju Baldurs og svo óskar Stykkishólmsbær eftir framkvæmdaleyfi vegna sjóvarnargarðs við Skúlagötu 15 vegna ágangs sjávar. Erindinu er frestað þar sem skoða þarf stærð mannvirkisins miðað við náttúrulegt umhverfi. Alla fundargerðina má lesa á www.stykkisholmur.is