Göngur á miðvikudögum

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands (FÍ) verða vítt og breitt um landið nú í september. Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga kl. 18:00. Fram kemur á vef Ferðafélagsins að þetta séu fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði. Fyrsta ganga hér á Snæfellsnesi er frá Stykkishólmi og verður miðvikudaginn 5. september þar sem göngustjóri verður Elísabet L. Björgvinsdóttir. Gengið verður um hlíðar Kerlingarfjalls. Upphafsstaður er á bílastæði við Íþróttahúsið í Stykkishólmi, þar sem sameinast verður í bíla.

am/frettir@snaefellingar.is